Sjöföldun á erlendum sendingum

Pósturinn þarf að ráðast í framkvæmdir til að ráða við …
Pósturinn þarf að ráðast í framkvæmdir til að ráða við aukið álag.

Pósturinn hefur vart undan við að afgreiða sendingar og þarf að ráðast í framkvæmdir til að mæta álaginu. Vatnaskil urðu 2013 þegar Íslendingar uppgötvuðu kínversku netverslunina AliExpress og í framhaldinu aðrar sambærilegar vefverslanir.

„Það ár varð tvöföldun á ábyrgðarsendingum frá útlöndum frá árinu áður og síðan þá hefur magnið sjöfaldast. Á móti einni sendingu árið 2012 eru því sjö í dag. Síðasta ár var metár og nú þegar bendir allt til þess að 2017 slái það met,“ segir Vésteinn Viðarsson, vörustjóri pakkasendinga hjá Póstinum, í viðtali í tímaritinu Umræðunni sem hagfræðideild Landsbankans gaf út í dag.

Pósturinn hefur þurft að grípa til aðgerða til að mæta þessu aukna álagi. „Við höfum stækkað og breytt öllum grundvallarkerfum okkar til að höndla magnið en höfum samt varla undan. Þetta er gríðarlegt umfang. Við þurfum að byggja til að mæta þessu og stækka póstmiðstöðina og um leið efla flokkunarbúnað og tölvukerfi,“ segir Vésteinn.

Vésteinn segir Póstinn reikna með áframhaldandi aukningu í netverslun á næstu árum. Ástæðulaust sé að ætla að vöxturinn haldi ekki áfram. „Sendingum frá útlöndum fjölgaði um 67% milli janúarmánaða 2016 og 2017 og á meðan netverslanirnar eru enn þá að þróast og eflast þá get ég ekki séð að það komi til með að draga úr viðskiptunum, þvert á móti.“

Megnið af allri netverslun Íslendinga er við erlendar vefverslanir en Vésteinn telur að það muni breytast á næstunni. „Á tveimur árum höfum við séð hraða þróun. Íslenskar verslanir eru orðnar mjög öflugar í kringum Black Friday og Cyber Monday og auglýsa alls konar tilboð sem við sjáum að er mjög vel tekið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK