Verðlagning á gráu svæði

Hraunglæður eða Möndlur?
Hraunglæður eða Möndlur? Mynd/Must see in Iceland

Sælgætið sem markaðssett er fyrir ferðamenn undir ýmsum nöfnum á borð við „lundaegg“ og „hrossaskítur“ er keypt af Kólus og Freyju áður en því er pakkað í nýjar umbúðir og selt á hærra verði. Félagið Ísland Treasures ehf. heldur utan um starfsemina og námu tekjur þess rúmum tólf milljónum króna árið 2015. Kostnaður við vörukaup var fjórar milljónir króna.

Félagið var stofnað árið 2012 og er í eigu írskrar konu að nafni Pauline McCarthy sem búsett er á Akranesi. Starfsemin fer fram á heimili hennar þar. Þrátt fyrir fyrrgreindar tekjur tapaði félagið 2,5 milljónum króna árið 2015 sökum rekstrarkostnaðar. 

Í gær varaði heimasíðan Must See In Iceland ferðamenn við sælgætinu. Bent var á að poki af Möndl­um kostar 215 krón­ur í Bón­us en sama magn af sama nammi kostar 990 krónur und­ir vörumerk­inu „Lava Sparks“ eða „hraunglæður“ í svo­kölluðum lunda­búðum. Verðmun­ur­inn er 360%.

Möndlurnar sem seldar eru undir vörumerkinu „Lava sparks“ eru keyptar hjá Freyju. Ævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Freyju, telur verðlagninguna á „túristanamminu“ háa og segir leiðinlegt að álagningin sé bendluð við Freyju. „Í byrjun var þetta kannski sniðugt en þetta er komið svolítið úr böndunum með verðið á þessu. Þetta var kona að bjarga sér í hruninu og mjög hugmyndarík og allt það en mér sýnist verðið komið út í þvælu,“ segir hann.

Einhver álagning eðlileg

Hann telur sælgætisgerðina þó ekki neitað henni um viðskipti. „Við erum að selja þetta í kílóavís á bari og til ýmissa fyrirtækja sem nota þetta. Hvort fólk endurpakki vörunum er ekkert sem við getum gert í,“ segir hann.

Aðspurður segir hann verðlagninguna óheppilega. „Það er svolítið gullgrafarakerfi á þessu,“ segir Ævar og vísar til 360% verðmunar. Hann telur einhverja álagningu eðlilega í ljósi þess að verið sé að endurpakka namminu. „En mér finnst þetta á gráu svæði.“

Ekki náðist í Ísland Treasures við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK