Þrýst á að ljúka viðskiptum

Í viðræðum um þátttöku lífeyrissjóða í kaupum á Arion banka undir lok síðasta árs og fram eftir þessu, var út frá því gengið að kaupverðið yrði miðað við eigið fé bankans eins og það stóð í 9 mánaða uppgjöri. Með því móti taldist verðið sem miðað var við jafngilda 0,81 krónu á hverja krónu eiginfjár. Eftir því sem leið á viðræðurnar jókst þrýstingur á sjóðina að gefa svar um hvort af þátttöku þeirra yrði eða ekki. Segja heimildir Morgunblaðsins að stjórnarmenn í stærstu lífeyrissjóðum landsins hafi upplifað samningaviðræðurnar með þeim hætti að verið væri að setja sjóðunum afarkosti.

Þá mun hafa verið lögð höfuðáhersla á að gengið yrði frá kaupum sjóðanna fyrir 13. febrúar síðastliðinn en þann dag birti bankinn uppgjör sitt fyrir allt árið 2016. Í uppgjörinu kom í ljós, eins og við var að búast, að eigið fé Arion banka hafði aukist frá lokum septembermánaðar. Olli það því að upphæðin sem gengið var út frá í viðræðunum að sjóðirnir myndu reiða af hendi fyrir umtalsverðan hlut í bankanum taldist 0,79 krónur á hverja krónu eiginfjár.

Skipti höfuðmáli í samningum

Þótt eðli samninganna hafi ekki breyst með nokkrum hætti þótt ársuppgjör bankans hafi verið birt, þá var forsvarsmönnum Kaupþings mikið kappsmál að hægt væri að sýna fram á að bankinn hefði verið seldur á genginu 0,81 en ekki 0,79. Það kemur til af þeirri staðreynd að hluti stöðugleikaskilyrða þeirra sem Kaupþing gekkst undir, í því skyni að koma á nauðasamningi, fólst í því að ef bankinn yrði seldur á gengi sem væri undir 0,8 af bókfærðu eigin fé þá gæti ríkissjóður gengið inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttarákvæðis.

Forkaupsrétturinn virkjast

Var ákvæðinu um forkaupsréttinn ætlað að stemma stigu við að eigendur Kaupþings seldu sjálfum sér bankann á undirverði. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins töldu þeir sem önnuðust samningagerð fyrir hönd ríkissjóðs mjög mikilvægt að bankinn yrði ekki seldur á of lágu verði því ef íslenskir bankar, sem væru vel fjármagnaðir og með afar hátt eiginfjárhlutfall, yrðu seldir á of lágu verði þá myndi það senda röng skilaboð um stöðu íslenska hagkerfisins út fyrir landsteinana. Slíkt myndi aftur hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat fjármálakerfisins og Landsvirkjunar.

Eftir að uppgjör Arion banka hafði verið birt um miðjan febrúarmánuð, var engu að síður lögð áhersla í viðræðunum á að áfram skyldi miðað við stöðu eiginfjár í lok níu mánaða tímabilsins. Kom það einhverjum lífeyrissjóðum spánskt fyrir sjónir en sú skýring fékkst að það væri mikilvægt vegna nefnds ákvæðis í samningi Kaupþings við ríkissjóð.

Ekki víst að forkaupsréttur yrði nýttur þrátt fyrir lægra verð

Þremur dögum áður en tilkynnt var um kaup vogunarsjóðanna á 29% hlut í bankanum birtist viðtal við Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, á miðopnu ViðskiptaMoggans. Þar var hann spurður út í hvort ríkissjóður myndi nýta sér forkaupsréttinn að bankanum ef kaupverðið yrði undir 0,8 sinnum eigið fé bankans. Þeirri spurningu svaraði ráðherra á þessa leið: „Ég skal ekki fullyrða um það en ég er ekki mjög spenntur fyrir því að ríkið eigi hér alla stóru bankana.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK