Enginn kannast við félagið Dekhill

Gert grein fyrir sölu á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka …
Gert grein fyrir sölu á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa og formælandi S-hópsins, og Peter Gatti, framkvæmdastjóri þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarnefnd Alþingis, sem rannsakaði þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands árið 2003, spurði meðal annars bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni, sem oft eru kenndir við Bakkavör, bréflega að því hvort þeir hefðu upplýsingar um aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, sem fékk snemma árs 2006 greiddar 46,5 milljónir Bandaríkjadala inn á bankareikning sinn frá félaginu Welling & Partners.

Bræðurnir sögðust í svarbréfum ekki reka minni til þess, sem nefndin vísaði til.

Í rannsóknarskýrslunni, sem birt var í gær, kemur fram að árið 2006, eftir að hlutur þýska bankans í Búnaðarbankanum hafði verið seldur, hafi 57,5 milljónir Bandaríkjadala verið greiddar af bankareikningi félagsins Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla.

Rannsóknarnefndin segir að raunverulegur eigandi Marine Choice Limited hafi verið Ólafur Ólafsson.

Runnið til aðila með tengsl við Kaupþing

Um svipað leyti hafi 46,5 milljónir Bandaríkjadala verið greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Nefndin segir að ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins. Leiddar eru líkur að því að féð hafi hafi endanlega runnið til aðila sem tengdust Kaupþingi hf. eða Kaupþingi í Lúxemborg.

Í skýrslunni segir að á síðari hluta árs 2005, þegar baksamningar um aðkomu Hauck & Aufhäuser höfðu verið framkvæmdir til fulls og fallið úr gildi, hafi Kaupþing í Lúxemborg lagt grunn að uppsetningu aflandsfélaga sem varðaði eignarhald Welling & Partners.

Til þess voru notuð „ný“ aflandsfélög, Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp.

Beðnir um að veita upplýsingar

Í bréfi rannsóknarnefndarinnar til bræðranna er vísað til þess, að þeir hafi á þessum tíma verið hluthafar í Kaupþingi í gegnum félagið Meið ehf. Í gögnum nefndarinnar komi fram að ráðgert hafi verið að félagið Jeff Agents Corp nyti m.n. fjárhagslegs ávinnings af Welling & Partners og raunverulegir eigendur Jeff Agents séu Ágúst og Lýður.

Af gögnum nefndarinnar verði ekki séð að greiðslur vegna fjárhagslegs uppgjörs Welling & Partners Limited hafi runnið með beinum hætti til Jeff Agents Corp. Í gögnunum komi hins vegar fram upplýsingar um að greiðslur sem hefðu svarað til þeirra greiðslna, sem renna áttu til Jeff Agents Corp hafi síðar runnið til félagsins Dekhill Advisors Limited.

Eru bræðurnir því meðal annars beðnir um að veita upplýsingar, sem þeir kunni að búa yfir varðandi félögin Jeff Agents og Dekhill og einnig um félagið Welling & Partners.

Fleiri spurðir

Í samhljóða svarbréfum segja bræðurnir að í bréfi nefndarinnar sé almennt vísað til atburða sem kunni að hafa gerst fyrir um 14 árum og engin gögn hafi fylgt með bréfinu.

„Til samræmis við síðasta lið fyrirspurnarinnar þá staðfestist hér með að mig rekur ekki minni til þeirra atriða sem greind eru í lið 1-3 í bréfinu,“ segir síðan í svarbréfum þeirra beggja.

Rannsóknarnefndin spurði Ólaf Ólafsson, Guðmund Hjaltason, Hreiðar Má Sigurðsson, Sigurð Einarsson, Steingrím Kárason, Bjarka Diego, Magnús Guðmundsson og Kristínu Pétursdóttir einnig að því hvort þau hefðu upplýsingar um Dekhill en þau sögðust ekki kannast við það félag.

Bréf rannsóknarnefndarinnar og svarbréfin

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK