Evran þolir ekki evrópska krísu

Zanny Minton Beddoes, aðalritstjóri The Economist, á ársfundi SA í …
Zanny Minton Beddoes, aðalritstjóri The Economist, á ársfundi SA í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Zanny Minton Beddoes, aðalritstjóri The Economist, telur óvíst að Brexit muni ganga vel, vonar að Donald Trump komi ekki öllum sínum áætlunum í gegn og hefur áhyggjur af evrópskum stjórnmálum á næstu árum. Hún telur pólitíska landslagið í dag að miklu leyti sprottið af reiði vegna fjármálakreppunnar.

Beddoes var með erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Hún vísaði til þess að fólk væri ennþá reitt eftir fjármálakrísuna og telur að stuðninginn við Brexit og Trump megi að nokkru leyti rekja til þess. Staðan í dag sé kaldhæðin í ljósi þess að fjárhagurinn sé nú að komast aftur á strik á sama tíma og vinsældir þjóðernishyggju aukast.

Hún segist gjarnan nota tvær leiðir til að lýsa Donald Trump. Annars vegar ljósa útgáfan og hins vegar dökka. Sá fyrrnefndi sé maður sem er viðskiptaþenkjandi og vill örva efnahaginn. Sá síðarnefndi maður sem líkar illa við NATO, þolir ekki múslima og kemur illa fram við konur. „Trump hefur sýnt að hann er smá af báðu,“ sagði hún og bætti við að stóra spurningin væri hvor útgáfan yrði ráðandi á kjörtímabili hans. Vísbendinga mætti leita í ráðgjöfum Trumps sem Beddoes segir vera á sitt hvorum enda rófsins; Annars vegar Steve Bannon sem kann illa við frjáls viðskipti og hins vegar hefðbundnir repúblikanar frá Goldman Sachs.

Telur Beddoes að Trump muni síður koma í gegn flóknum málefnum sem krefjast stuðnings þingsins. Áformaðar breytingar á skattkerfinu mæti líklega sömu örlögum. Honum gæti tekist að lækka skatta en hins vegar séu sterk hagsmunaöfl í Washington sem berjast gegn öðrum meiriháttar breytingum.

Þá sagðist Beddoes einnig hafa töluverðar áhyggjur af aðgerðum Trumps gegn ólöglegum innflytjendum. Benti hún á að einn af hverjum tuttugu af bandaríska vinnuaflinu séu ólöglegir og telur hún að harkaleg stefna í þessum málum gæti reynst bandaríska hagkerfinu skaðleg. 

Beddoes hefur áhyggjur af innflytjendastefnu Trumps.
Beddoes hefur áhyggjur af innflytjendastefnu Trumps. AFP

Áhyggjur af komandi kosningum

Beddoes segir mikla óvissu ríkja í Evrópu og líkti hún Evrópusambandinu við manneskju með gráa fiðringinn. Fólk í þeirri stöðu ætti það til að gera eitthvað óúthugsað. „Þegar ég fer til Parísar og tala við franska vini mína segja þeir að það sé ekki nokkur leið að Marie Le Pen muni sigra [forsetakosningarnar]. Ég vona að þeir viti betur en ég,“ sagði hún og bætti við að ekki væri heldur hægt að útiloka að Martin Schulz hafi betur en Angela Merkel í þýsku kosningunum í haust. Þá séu einnig blikur á lofti á Ítalíu með þjóðernissinna í Fimm stjörnu hreyfingunni undir forystu Beppe Grillo. „Við erum með mikla óvissu í stórum Evrópulöndum. Og jafnvel þótt Evrópusinnar hafi betur á enn eftir að leysa úr stórum vandamálum,“ sagði Beddoes og vísaði til fjármálakreppunnar á Grikklandi og vanda ítölsku bankanna. 

„Ég sé ekki hvernig evran á að lifa af krísu í Evrópu,“ sagði Beddoes.

„Ég sé ekki hvernig evran á að lifa af krísu …
„Ég sé ekki hvernig evran á að lifa af krísu í Evrópu,“ sagði Beddoes. AFP

Undirbúa næstu byltingu

Þá segist hún ekki viss um að Brexit muni ganga samkvæmt áætlun og telur næstum óraunhæft að greiða úr öllu innan tveggja ára. „Eitthvað mun gefa eftir,“ sagði Beddoes og bætti við að líkja mætti þessu við raunverulegan skilnað þar sem rifist væri um peninga og börnin: Hversu mikið skuldar Bretlandi og hvernig fer með aðganginn. „Við höldum ennþá að við getum fengið allt en við getum það ekki,“ sagði Beddoes sem býr í Bretlandi.

Beddoes segir nauðsynlegt að þjóðarleiðtogar horfist í augu við vandamálin og vísaði þar einnig til næstu byltingar: Tæknibyltingarinnar sem hún telur að gæti haft svipuð áhrif og iðnbyltingin. Sem dæmi um þetta þyrfti einungis að horfa á fjölda vörubílstjóra í Bandaríkjunum sem allir gætu misst störfin sín til sjálfkeyrandi bíla á næstu árum. Telur hún nauðsynlegt að huga að undirbúningi; Breyta menntakerfinu og stjórnsýslunni í samræmi við þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK