Benedikt vill ekki hærri bónusa

Ekkert kaupaukakerfi er innan Landsbankans og Íslandsbanka.
Ekkert kaupaukakerfi er innan Landsbankans og Íslandsbanka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segist ekki hafa áhuga á að heimila hærri kaupauka í fjármálakerfinu líkt og forveri hans í starfi lagði til í frumvarpi. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, telur líklegt að hægur stígandi verði í bónusgreiðslum innan íslenska bankakerfisins á næstu árum.

Hann segir ofurbónusa líkt og þá sem greiddir verða hjá Glitni HoldCo ekki tíðkast innan íslenska bankakerfisins.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bónusgreiðslur til stjórnarmanna og lykilstarfsmanna Glitnis HoldCo verði samanlagt 22,85 milljónir evra, jafnvirði 2,7 milljarða króna. Þetta rennur að mestu til þriggja erlendra stjórnarmanna en þrír íslenskir lykilstjórnendur fá þó einnig umtalsverðan hlut. Meðal stærstu hluthafa Glitnis er vogunarsjóðurinn Taconic Capital sem keypti nýlega 9,99 prósenta hlut í Arion banka.

„Þetta eru erlendir aðilar sem eru ekki að fara eftir íslenskum lögum og reglum Fjármálaeftirlitsins. Þetta er utan við og á skjön við íslenskan veruleika enda er þetta ekki íslenskt. Þetta virðist vera tengt einhverju lokauppgjöri á þrotabúi Glitnis,“ segir Friðbert.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Úr takti við íslenskan veruleika

Samkvæmt íslenskum lögum mega bónusgreiðslur ekki vera hærri en 25 prósent af árslaunum viðkomandi starfsmanns. Slitabú föllnu bankanna eru þó undanþegin þessum reglum.

Fjármálaráðherra telur það miður. „Mér finnst þetta eins og aðrir kaupaukar sem hafa verið greiddir úr slitabúum gömlu bankanna vera alveg úr takti við íslenskan veruleika,“ segir Benedikt. „Því miður var ekki búið svo um hnútana þegar gengið var frá málefnum slitabúanna að þak væri sett á greiðslur bæði til starfsmanna og bússtjóra,“ segir Benedikt.

Óhóflegir kaupaukar orsök græðgisvæðingar

Í frumvarpi sem Bjarni Benediktsson fyrrverandi fjármálaráðherra lagði fram árið 2014 var lögð til sú breyting á lögum að hluthafafundi fjármálafyrirtækis yrði heimilt að hækka kaupauka upp í 100 prósent af heildarlaunum starfsmanns. Var markmiðið að samræma íslensk lög við tilskipun ESB. Síðar var horfið frá þessu og lagt var upp með að kaupaukar gætu að hámarki numið 50% af árslaunum.

Frumvarpið varð þó ekki að lögum og Benedikt segir það ekkert áhugaefni sitt að auka kaupauka í fjármálakerfinu. „Óhóflegir kaupaukar voru ein af helstu ástæðunum þess að við lentum í hruninu. Fyrir þessari miklu græðisvæðingu sem var þá ríkjandi,“ segir hann. Aðspurður hvort hann muni þá ekki leggja fram sambærilegt frumvarp svarar Benedikt: „Augljóslega ekki“.

Ekkert kaupaukakerfi hjá Íslandsbanka og Landsbanka

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka og Landsbanka er ekkert kaupaukakerfi rekið innan bankanna tveggja. Kaupaukakerfi hefur þó verið starfrækt innan Arion banka og í fyrra gjaldfærði bankinn 331 milljón vegna bónusa til starfsmanna. 

Friðbert Traustason, formaður SSF.
Friðbert Traustason, formaður SSF. Mynd/Afmælisrit SSF

Þá samþykkti aðalfundur Kviku í síðasta mánuði að greiða 550 milljónir króna í arð til svokallaðra B-hluthafa þeir eru flestir starfsmenn bankans. B-hluthafar eiga samkvæmt samþykktum fyrirtækisins rétt til arðs sem nemur 35 prósentum af árlegum hagnaði fyrir tekjuskatt, að því marki sem hagnaður kann að fara umfram 6% arðsemi eigin fjár. Ekki er ljóst hversu margir starfsmenn eru B-hluthafar eða hversu stór hluturinn er en ljóst er að arðgreiðslurnar gætu farið yfir 25 prósent af árstekjum einstakra starfsmanna.

Komi hægt inn í kerfið

Friðbert segist ekki hafa heyrt að félagsmenn séu almennt mótfallnir 25% þaki á bónusa og telur hann að greiðslurnar muni koma mjög hægt inn í launakerfi íslenskra banka. „Þetta er leið [þ.e. kaupaukar] sem farin er alls staðar í heiminum undir ákveðnum reglum þó en menn hafa sett miklu strangari reglur en voru í gildi árið 2008 þar sem þetta var komið alveg úr böndunum. Ég hef heyrt að innan Evrópusambandsins sé þetta á þessu bili. Þetta getur verið 1/4 af árslaunum en það eru til undantekningar þar þar sem þetta fer upp í 100%.“

Aðspurður hvort hann vænti breytinga á kaupaukakerfum þegar losað verður um eignarhald ríkisins svarar Friðbert að bónusarnir muni líklega koma mjög hægt inn í launakerfi íslenskra banka. „Ég held að það verði nokkuð lengi sem að reglur Fjármálaeftirlitsins verða hafðar til hliðsjónar,“ segir Friðbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK