Ný ferðatilskipun á næsta ári

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ferðir sem eru keyptar af mismunandi seljendum með hjálp tengdra bókunarferla á netinu munu flokkast sem pakkaferðir samkvæmt nýrri ferðatilskipun Evrópusambandsins sem mun koma til framkvæmda 1. júlí á næsta ári. Það á þó aðeins við þegar að seljandinn, sem fyrsti samningurinn er gerður við, sendir nafn ferðamannsins, greiðsluskilmála og netfang hans til annars eða annarra seljenda og samningur er gerður við þá eigi síðar en 24 klst. eftir að bókun fyrstu ferðatengdu þjónustunnar er staðfest.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en tilskipunin verður kynnt á fundi í næstu viku. Helstu breytingarnar snúa að pakkaferðum, samtengdri ferðatilhögun,aukinni upplýsingaskyldu og tryggingavernd.

Víðtækari upplýsingaskylda mun hvíla á seljanda gagnvart kaupanda áður en samningur um pakkaferð er gerður og lýtur að því í hverju réttur kaupanda er fólginn. Upplýsingaskyldu er ætlað að auka gagnsæi og réttaröryggi frá sjónarhóli ferðamannsins.
Samkvæmt tilskipuninni verður skylt að upplýsa kaupanda um, hvort um pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun sé að ræða, hver sé ábyrgur fyrir framkvæmd ferðarinnar, að trygging sé til staðar vegna endurgreiðslu og heimferðar vegna hugsanlegrar ógjaldfærni, gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar og hvert eigi að snúa sér við slíkar aðstæður, hvar hægt sé að nálgast nauðsynlegar upplýsingar um ábyrgðaraðilann, um framsal ferðar til annarra, verð ferðarinnar og hugsanlegar verðbreytingar, riftun samnings með og án þóknunar,
 til hvaða ráðstafana verði gripið ef ekki er hægt að framkvæma ferðina eins og ætlast er til og hvaða aðstoð verði veitt ef ferðamaðurinn lendir í erfiðleikum.    

Þá verður tryggingarskyldan útvíkkuð með tilskipuninni, annars vegar með breyttri skilgreiningu á pakkaferð og hins vegar með tilkomu samtengdrar ferðatilhögunar. Þá felur tilskipunin það í sér að reynt getur á trygginguna í tilfelli ógjaldfærni en einskorðast ekki við gjaldþrot eins og áður var. Tryggt skal að ferðamaður fái fulla endurgreiðslu þess fjár sem hann hefur greitt vegna ferðar sem enn er ófarin og til flutnings heim úr ferð vegna ógjaldfærni eða rekstrarstöðvunar.

Nýmæli er að aðildarríkin skulu viðurkenna tryggingarkerfi hvers annars og skulu þau vinna saman á sviði stjórnsýslu og eftirlits með tryggingarskyldum aðilum aðildarríkjanna. Einnig er aðildarríkjunum veitt svigrúm til þess að gera skipuleggjendum utan EES-svæðisins sem selja og bjóða til sölu pakkaferðir í aðildarríkjunum eða beina starfsemi sinni að þeim, skylt að leggja fram ábyrgðir.

Eftir sem áður verður seljanda eingöngu heimilt að gera breytingar á verði ferðar ef breytingarnar stafa af hækkun eldsneytisgjalds, skattabreytingum eða gengisbreytingum og að fram hafi komið í samningi að til slíkra breytinga geti komið. Óheimilt er að gera verðbreytingar síðustu 20 daga fyrir brottför. Nýmæli er að ferðamaður skal með sama hætti eiga rétt til lækkunar á verði ef verðlækkanir eiga sér stað á umræddum kostnaðarliðum. Þá er nú sérstaklega kveðið á um það að ef verðhækkanir fara fram yfir 8% hækkun á heildarverði pakkaferðar/samtengdrar ferðatilhögunar skal ferðamaður eiga rétt á að rifta samningi sér að kostnaðarlausu og fá fulla endurgreiðslu.

Fimmtudaginn 15. júní 2017 verður haldinn kynningarfundur um nýju ferðatilskipunina. Starfshópur sem unnið hefur að undirbúningi málsins vill tryggja samráð við hagsmunaaðila og boðar í því skyni til fundar þar sem helstu breytingar verða kynntar og leitast verður við að fá fram ábendingar og athugasemdir sem nýst geta við áframhaldandi vinnu. Á fundinum munu fulltrúar ANR, Ferðamálastofu og Neytendastofu kynna helstu breytingar.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 15. júní kl. 10:00 – 12:00 í fundarsal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 1. hæð, Skúlagötu 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK