Ferðin á Akranes mun taka 25 mínútur

Ferjan er frá árinu 2007.
Ferjan er frá árinu 2007. Aðsend mynd

Áætlunarsiglingar milli Reykjavíkur og Akraness hefjast á mánudaginn. Farið verður þrisvar á dag í ferju sem tekur 110 manns í sæti og er keypt frá Noregi „Ferjan mun heita Akranes og er frá árinu 2007 sem er mjög nýtt í skipageiranum,“ segir Ólafur William Hand, markaðsstjóri Eimskipa í samtali við mbl.is.

Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða milli Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Eimskip en Sæferðir, sem eru í eigu Eimskipa sjá um ferðirnar.

Fyrsta ferð fer klukkan 6:30

Ferðin á milli Reykjavíkur og Akraness mun taka 25 mínútur. Ein ferð kostar 2.500 krónur og fram og til baka 4.000 krónur en sé keypt 20 miða kort kostar ein ferð 875 krónur.

Samkvæmt áætlun verður fyrsta ferðin á morgnanna frá Reykjavík klukkan 6:30. „Það er til þess að ná í fólk á Akranesi sem er í vinnu eða skóla í Reykjavík,“ útskýrir Ólafur.  

Ferjan verður þá komin á Akranes rétt fyrir sjö og leggur af stað til Reykjavíkur rúmlega sjö. Síðan fer önnur ferð frá Reykjavík klukkan 10:30 og svo klukkan 17:30 en hún er hugsuð til þess að koma fólki aftur til síns heima á Akranesi eftir daginn.

Ferjan fer frá Vesturbugtinni við gömlu höfnina í Reykjavík og leggst síðan að við gömlu Akraborgarhöfnina á Akranesi.

Verður lyftistöng fyrir Akranes

Ólafur segir helsta markhópinn í þessum áætlun það fólk sem sækir vinnu og skóla til Reykjavíkur frá Akranesi. Þá gerir hann einnig ráð fyrir því að ferðamenn verði áberandi.

Ferjan mun eins og fyrr segir sigla á milli þrisvar á dag en einnig utan áætlunar þar sem boðið verður t.d. upp á að fólk geti leigt allt skipið eða hluta, t.d. fyrir hópa á leið á íþróttaviðburði og segir Ólafur að íþróttafélögin hafi mikið haft samband. „Síðan eru viðburðir eins og Írskir dagar og Menningarnótt sem fólk sækir í,“ segir Ólafur og segir að til standi að prófa allskonar ferðir þarna á milli.

Ólafur segist ekki efast um að ferðirnar verði lyftistöng fyrir …
Ólafur segist ekki efast um að ferðirnar verði lyftistöng fyrir Akranes. mbl.is/Árni Sæberg

Hann efast ekki um að ferðirnar muni hafa jákvæð áhrif á Akranes. „Sérstaklega þar sem ferðin er svo stutt, bara 25 mínútur. Það er hellingur að sækja upp á Skaga, mikið af náttúruperlum, listasöfn, byggðasöfn og íþróttir. Ég efast ekki um að þetta verði lyftistöng fyrir bæjarfélagið.“

Lætur vel að stjórn

Hann segir að reynt verið að sigla eins lengi og hægt er inn í veturinn. „Núna þurfum við bara að sjá hvernig ferjan lætur og hvernig hún hentar. Við förum í þetta verkefni full bjartsýni en ferjan er núna í Vestmannaeyjum þar sem hún er búin að vera í prófunum. Skipstjórarnir segja að hún sé frábær og láti mjög vel að stjórn í öldum,“ segir Ólafur.

Akranes fer í sína fyrstu siglingu milli Reykjavíkur og Akranes á fimmtudaginn klukkan 17 með boðsgesti. „En allir eru velkomnir að koma upp á Skaga að taka á móti ferjunni þegar hún kemur þangað.  Akranesbær býður í grill og svo ætlum við að bjóða upp á 10-15 mínútna siglingu út frá Akranesi í svona tvo til þrjá tíma,“ segir Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK