„Sættum okkur ekki við að slysum fjölgi svo mikið“

Samfara stórauknum ferðamannastraumi til Íslands fer slysum á ferðamönnum í …
Samfara stórauknum ferðamannastraumi til Íslands fer slysum á ferðamönnum í umferðinni fjölgandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir mikilvægt að Íslendingar sýni ferðamönnum skilning því aðstæður hér á landi kunni að vera þeim framandi. Samfara stórauknum ferðamannastraumi til Íslands fer slysum á ferðamönnum í umferðinni fjölgandi. Sömuleiðis mætti fyrirbyggja slys með því að sinna viðhaldi á vegum, sem hafi ekki verið sinnt nægilega vel. Þá mætti veita ferðamönnum betri ráðgjöf varðandi samgöngumáta og gera þeim betur grein fyrir áhættunni við akstur. Fleiri ferðamönnum fylgir aukið álag á vegakerfið. Áætlað er að bílaleigubílar hafi ekið um 540 milljónir kílómetra á síðasta ári sem svari um 400 þúsund ferðir um hringveginn.

Hermann segir að ef fjórir farþegar séu í bíl sem …
Hermann segir að ef fjórir farþegar séu í bíl sem lendir í alvarlegu slysi geti bótafjárhæð tryggingafélags auðveldlega farið langt fyrir 100 milljónir króna. mbl.is/Kristinn Magnússon
Samfara stórauknum ferðamannastraumi til Íslands fer slysum á ferðamönnum í umferðinni fjölgandi. „Þessi þróun hefur verið mjög hröð á síðustu misserum en frá árinu 2014 hefur fjöldi slasaðra ferðamanna í umferðinni á Íslandi tvöfaldast. Þetta er ansi mikil aukning og ljóst að grípa þarf til aðgerða. Við verðum að tryggja að ferðamennirnir komist heilu og höldnu til síns heima. Það mætti eflaust veita þeim betri ráðgjöf varðandi samgöngumáta, þ.e. hvort hyggilegast væri að taka rútu eða bílaleigubíl, og gera þeim betur grein fyrir áhættunni sem fylgir akstri á vegum úti. Auk þess þarf að ráðast í umfangsmiklar umbætur á vegum landsins – líka á höfuðborgarsvæðinu – til þess að tryggja öryggi ökumanna. Það hefur lengi setið á hakanum og skapar hættu í umferðinni,“ segir Hermann.

Athygli vekur að fjöldi ferðamanna sem slasast í umferðinni sem hlutfall af heildarfjölda ferðamanna sem koma til landsins hefur farið lækkandi frá árinu 2011 þrátt fyrir stóraukna umferð á vegum. Hermann segir að mögulega hafi það sitt að segja að ferðamenn dreifist betur yfir árið og að tíðarfar hafi almennt verið ágætt. „Þrátt fyrir þessa staðreynd getum við ekki sætt okkur við að slysum fjölgi svo mikið,“ segir Hermann.

Bandaríkjamenn betri ökumenn

Eins og fram kom í ViðskiptaMogga fyrir viku er áætlað að erlendir ferðamenn á bílaleigubílum lendi í lítilsháttar færri umferðaróhöppum, þar sem slys verða á fólki, en Íslendingar þegar litið er til áætlaðra ekinna kílómetra. Samkvæmt opinberum gögnum sem Sjóvá hefur rýnt er hins vegar mikill munur á tjónatíðni eftir þjóðernum. Kínverskir ferðamenn lenda t.d. oftar í slysum í umferðinni en meðal-ferðamaðurinn, á meðan Bandaríkjamönnum hefur farnast mun betur. Athygli vekur að erlendir ferðamenn slasast í langflestum tilvikum við útafakstur og bílveltur en Íslendingar lenda oftar í aftanákeyrslum og hliðarákeyrslum. Skýringin á þessu er eflaust sú að ferðamenn ferðast mikið utan þéttbýlis.

„Samkvæmt þessari tölfræði eru erlendir ferðamenn almennt ekki verri ökumenn en við Íslendingar og eiga áhyggjur sumra um að Íslendingar séu að niðurgreiða ökutækjatryggingar fyrir erlenda ökumenn því ekki við rök að styðjast,“ segir hann.

Eins og fyrr segir breytist myndin umtalsvert þegar rýnt er í einstaka þjóðerni. „Sem dæmi má nefna að á tólf ára tímabili frá árinu 2002-2014 slösuðust 30 Kínverjar í umferðinni. En í fyrra slösuðust 36 Kínverjar, sem er jafn mikið og árið 2015,“ segir Hermann Björnsson. Þegar horft er til áætlaðra ekinna kílómetra lenda Kínverjar í 11,8 umferðaróhöppum þar sem slys verða á fólki fyrir hverja 100 þúsund kílómetra sem þeir aka. Bandaríkjamenn, sem keyra hvað mest hérlendis, lenda í 2,1 slysi á sama mælikvarða. „Fyrir nokkrum árum voru það Ítalir og Spánverjar sem lentu í flestum slysum hlutfallslega og þrátt fyrir að slysatíðni þeirra sé enn tiltölulega há miðað við heildina veldur sú þróun sem við sjáum hjá Kínverjum okkur áhyggjum,“ segir hann.

Fjöldi ferðamanna hefur meira en þrefaldast frá árinu 2011 í 1,8 milljónir í fyrra. Talið er að 2,5 milljónir manna muni sækja landið heim á næsta ári. Á sama tíma hafa æ fleiri ferðamenn kosið að nýta sér bílaleigubíla. Í fyrra er áætlað að 56% ferðamanna hafi gert það samanborið við 33% árið 2009. Ísland er í auknum mæli að verða staður þar sem ferðamenn kjósa bílaleigubíla sem ferðamáta. Þróunin er jafnframt í þá átt að bílaleigubílar séu nýttir meira að vetrarlagi.

Aukið álag á vegakerfið

Fleiri ferðamönnum fylgir aukið álag á vegakerfið. Áætlað er að bílaleigubílar hafi ekið um 540 milljónir kílómetra á síðasta ári. „Það gerir um 400 þúsund ferðir um hringveginn,“ segir hann og nefnir að miðað við meðakstur einkabíla samsvari það um 45 þúsund bílum sem samsvarar um 20% stækkun á bílaflota landsmanna.

Hermann segir að mikilvægt sé að Íslendingar sýni erlendum ferðamönnum skilning á að aðstæður hér á landi kunni að vera þeim framandi. Hægt sé að setja Íslendinga í sömu fótspor á erlendri grundu. Hann rekur dæmi af útvarpsviðtali við þekktan Íslending sem er vanur að ferðast um heim allan. Sá var í Marokkó um hásumar. Ferðalangurinn ákvað að skoða sig um og leggur af stað frá hóteli sínu í gönguferð í um 40 stiga hita án höfuðfats og vatns. Þá gengur upp að honum heimamaður sem bendir á hve hættulegt það sé að þramma um göturnar án þess að verjast sólinni.

„Við Íslendingar megum taka okkur þennan Marokkóbúa til fyrirmyndar. Ég legg til að í stað þess að gert sé lítið úr ökuhæfni þeirra þjóðerna sem lenda í flestum slysum, verði horft á málið frá öðru sjónarhorni: Þarna geta verið á ferð vel upplýstir einstaklingar sem þekkja þó ekkert til okkar staðhátta,“ segir hann.

Ferðamenn vanmeta aðstæður

„Það sem kann að skýra háa slysatíðni hjá sumum þjóðernum, er að ökumaðurinn vanmetur aðstæður. Þeir eru mögulega ágætir ökumenn í sínu heimalandi en þegar hingað er komið, þar sem aðstæður eru með öðrum hætti, bregst þeim bogalistin. Sumir þeirra hafa ef til vill aldrei barið snjó augum eða keyrt á þröngum malarvegum.

Þeir eru mögulega eina stundina að keyra um á malbikuðum vegi á Íslandi og aðra stundina á einbreiðum malarvegi. Og þeir hafa líklega aldrei á ævinni keyrt á slíkum vegi. Ekki nóg með að þeir hafi ekki áður ekið á malarvegi heldur er oft erfitt að mæta bílum við slíkar aðstæður. Í ofanálag eru einbreiðar brýr víða um land og hætturnar við aksturinn eru því mýmargar.

Það er mjög misjafnt hvernig málum er háttað hjá bílaleigunum. Stærri bílaleigur standa sig vel og hafa til að mynda öryggisstjóra sem er í fullu starfi við að upplýsa ferðamenn um hættur sem kunna að leynast á vegum úti, til að mynda ef búist er við vonskuveðri upplýsir hann ferðamenn um það. Þeir geta þá tekið mið af því í sínum ferðaplönum.

Það þarf jafnframt að ganga úr skugga um að bílstjórar hafi gild ökuréttindi. Það eru til alvarleg dæmi þar sem bílstjórar hafa átt í erfiðleikum með að leggja af stað á vit ævintýranna frá bílastæði bílaleigunnar. Stundum jafnvel ekki almennilega kunnað á gírskiptinguna eða átt í erfiðleikum með að losa bílinn úr handbremsu. Þar sem ökuskírteini eru alla jafna gefin út á móðurmálinu hafa starfsmenn bílaleiganna ekki hugmynd um hvers eðlis skírteinið er sem þeim er afhent.“

Hömlur á ökuskírteini þekkjast erlendis

Hermann vekur athygli á því að í Þýskalandi og Finnlandi hafi margar bílaleigur lagt hömlur á hvaðan ökuskírteinin eru, hvort þeir leyfi að viðkomandi leigi bíl eða ekki. Til að mynda verði Kínverjar að mæta með opinbera þýðingu á ökuskírteini ásamt upprunalega skírteininu á bílaleigur í Þýskalandi og þeim sé óheimilt að leigja bíla í Finnlandi því Kína er ekki hluti af alþjóðlegum sáttmála um umferðaröryggi (Vienna Convention on Road Traffic). „Margar bílaleigur á Íslandi hafa gert þessar kröfur um opinbera þýðingu eða gild alþjóðleg ökuskírteini en það mætti örugglega herða áskilnað um slíkt,“ segir hann.

Skortur á viðhaldi vega

„Það má heldur ekki líta fram hjá því að viðhald vega er ekki sem skyldi. Vegamálastjóri hefur bent á að aðstæður séu með þeim hætti, að það sé ekki lengur spurning um viðhald vega heldur þurfi að hefjast handa við uppbyggingu þeirra upp á nýtt. Ástand þeirra sé svo slæmt.

Við höfum merkt það hjá okkur á undanförnum árum að tjón á framrúðum hefur farið vaxandi vegna ástands vega. Mörg hver af þessum tjónum áttu sér stað á malbikuðum vegum en ekki malarvegum. Við þetta má bæta, að það er mikil aukning innanbæjar í tjónum á framrúðum vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Slitlag er að losna upp og malbikið að molna undan okkur.

Við verðum að bera gæfu til að huga að innviðum í vaxandi ferðamannastraumi. Þetta býður hættunni heim fyrir alla sem eru í umferðinni, hvort heldur sem um ræðir ferðamenn eða Íslendinga.“

Hermann bendir á að tekjur af ferðamönnum hafa stóraukist og því mikilvægt að stærri hluti af því fjármagni sem rennur til hins opinbera sem og einkageirans frá ferðamönnum verði nýttur í viðhald vega, uppbyggingu innviða og að blásið verði til einkaframkvæmda. „Erlendis veigrum við Íslendingar okkur ekki við því að greiða vegtolla. Væri ekki ráð að fá útlendinga í lið með okkur að greiða niður vegaframkvæmdir? Aðrir hafa fetað þessa braut með góðum árangri. Ég sé til dæmis fyrir mér að fýsilegt væri að ráðast í slíkar framkvæmdir í nærumhverfi höfuðborgarinnar þar sem ferðamannafjöldinn er mikill.“

Heilbrigðiskerfið verður dýrara

Hann segir að hægt væri að koma í veg fyrir mörg slys með bættu viðhaldi vega. „Það er augljóst orsakasamhengi þar á milli. Ég tel að heilbrigðiskerfið þurfi á umtalsvert meira fjármagni að halda vegna skorts á viðhaldi vega og öfugt. Takist okkur vel til í úrbótum á vegum dregur það úr slysum og þar með kostnaði í heilbrigðiskerfinu“

Aðspurður hvað það sé sem valdi slysum nefnir hann nokkra þætti: Malarvegir, en ferðamenn eru oft óvanir að aka á slíkum vegum, þröngir vegir en þar er erfitt að mæta bílum og sömuleiðis þegar bílar mætast við einbreiðar brýr. Þá nefnir hann litlar vegaxlir til sögunnar og að vegir séu ekki nægilega vel merktir.

Gagnrýnir formann skipulagsráðs

Hermann er gagnrýninn á hugmyndir Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um að leggja gjald á bíla sem eru á nagladekkjum í Reykjavíkurborg. Ástæðan er sögð að bílum á nagladekkjum fari fjölgandi. „Bílaleigubílar eiga að vera á nagladekkjum öryggisins vegna enda keyra ferðmenn langmest út á landi og þar verða aðstæður oft þannig að ekkert nema nagladekk duga til. Þá eru há gildi svifryks í Reykjavík ekki eingöngu vegna nagladekkja heldur líka vegna þess að efnin sem hafa verið notuð í malbikið síðustu árin eru ekki nægilega endingargóð og göturnar ekki nægilega vel sópaðar,“ segir hann.

Bílslys geta kostað yfir 100 milljónir

En hvað kosta bílslys tryggingafélögin? Bílslys þar sem slys verða á fólki eru dýr, að sögn Hermanns. Hann segir að ef fjórir farþegar séu í bíl sem lendir í alvarlegu slysi geti bótafjárhæð tryggingafélags auðveldlega farið langt yfir 100 milljónir króna . Örorkubætur eiga að bæta tekjumissi þeirra sem verða fyrir slysi, við bætist vist á sjúkrahúsi og bíllinn, sem mögulega væri 5-10 milljónir af téðri fjárhæð.

Til viðbótar má hafa í huga að kostnaður íslenskra tryggingafélaga verður enn meiri þegar þeir sem verða fyrir tjónum koma frá löndum sem eru fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að þau taka ekki þátt í því samtryggingarkerfi sem gildir innan Evrópu. Almennt er ekki talið heimilt að mismuna t.d. eftir þjóðernum en í þessu tilliti er það sérstakt þegar raunkostnaður er hærri og þar með verndin sem verið er að veita. „Þessi þáttur gæti skipt okkur Íslendinga miklu máli varðandi útgöngu Breta úr ESB en þeir eru 18% af okkar ferðamönnum,“ segir Hermann.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK