Takmarki notkun reiðufjár til að sporna við skattsvikum

Starfshópurinn leggur til að notkun reiðufjár hér á landi verið …
Starfshópurinn leggur til að notkun reiðufjár hér á landi verið takmörkuð. mbl.is/Kristinn

Undanfarna þrjá áratugi hefur umfang skattsvika hér á  landi verið metið á bilinu 3-7% af landsframleiðslu, eða u.þ.b. 10% af heildartekjum hins opinbera, samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið. Sé miðað við að undanskot árið 2016 hafi verið 4% af landsframleiðslu þá námu þau um 100 milljörðum króna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem fékk það verkefni að greina umfang skattaundanskota og tillögur til aðgerða en hann kynnti tillögur sínar í fjármálaráðuneytinu í morgun. 

Skattlagabrot orðin skipulagðari

Er það mat hópsins að þó svo að margvíslegur árangur hafi náðst gegn skattsvikum eru skattalagabrot orðin skipulagðari og geta snúist um umtalsverðar upphæðir, í einstaka tilfellum um fleiri hundruð milljóna króna.

Þá bætist við tjón samfélagsins vegna undanskotinna tekna í tengslum við aflandsfélög, sem metin eru á 16 milljarða króna vegna fjármagnstekjuskatts yfir árin 2006-2009 og 42 milljarða króna vegna vanhalda á auðlegðarskatti á 6 ára tímabili 2009-2014. Samtals gera þetta 58 milljarða króna yfir 9 ára tímabil vegna aflandseigna.

Skattþrepin hvetja til undanskota

Hópurinn telur það mikilvægt að fækka undanþágum frá almenna virðisaukaskattsþrepinu og minnka bilið á milli skattþrepa eða sameina þau þar sem mismunandi virðisaukaskattsþrep eru meðal þess sem eykur hvata til undanskota. Þá ætti að innleiða löggild og nettengd verslunarkerfi, eða kassakerfi, sem senda upplýsingar um veltu smásala beint til skattyfirvalda.

„Slíkt myndi auðvelda hlutverk eftirlitsaðila,“ segir í tillögum hópsins.

Reglur um keðjuábyrgð verði lögfestar

Í skýrslunni segir jafnframt að svo virðist sem kennitöluflakk og undanskot í verktakaiðnaði fari fram með skipulagðari hætti en áður. Því er lagt til að reglur um keðjuábyrgð verði lögfestar, þannig að verktakar beri í auknum mæli ábyrgð á skilum opinberra gjalda undirverktaka. Þá er lagt til að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann sem sýnt hafa af sér grófa og óverjandi viðskiptahætti sem stjórnendur félaga og að reglur um hæfi einstaklinga til að stofna félög og fá virðisaukaskattsnúmer verði þrengdar.

Skattundanskot og peningaþvætti byggja mikið á reiðufé. Almenn reiðufjárnotkun er þó mjög lítil hér á landi í alþjóðlegum samanburði og rafræn greiðslukortaviðskipti ráðandi. Til að torvelda möguleika til skattundanskota og peningaþvættis er lagt til að reiðufjárnotkun verði takmörkuð.

Í starfshópnum sátu Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri, formaður, Ása Ögmundsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Björn Rúnar Guðmundsson, tilnefndur af Hagstofu Íslands, Elín Guðjónsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðbjörg Eva Baldursdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Helga Rún Hafliðadóttir, tilnefnd af skattrannsóknarstjóra, Jenný Stefanía Jensdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Jón Bjarni Steinsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra, Ólafur Hauksson, tilnefndur af innanríkisráðuneyti, Ragnhildur D. Þórhallsdóttir, tilnefnd af ríkisskattstjóra og Sigríður Olgeirsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK