Væntir samruna í prentiðnaði

Fyrirtæki senda minna af pappír til viðskiptavina.
Fyrirtæki senda minna af pappír til viðskiptavina. Jón Svavarsson

Samdráttur í prenti mun að óbreyttu leiða til samruna í prentgreininni. Þetta er mat Guðjóns Sigurðssonar, stofnanda pappírsinnflutningsfyrirtækisins Hvítlistar. Guðjón segir markaðinn skiptast í dagblaðapappír, betri prentpappír og skrifpappír.

„Innflutningur á dagblaðapappír var lengi stöðugur en hefur dregist saman. Innflutningur á prent- og skrifpappír er á miklu undanhaldi. Það á sérstaklega við bækur. Sterkt gengi, og því hár launakostnaður, hefur þau áhrif að menn leita frekar til láglaunalanda með prentun.“

Notkunin minnkað mikið

Guðjón segir opinberar stofnanir senda orðið minna af tilkynningum. Þá sendi fyrirtæki minna af pappír til viðskiptavina. Bankar og tryggingarfélög noti líka minna af pappír.

Fram kom í ViðskiptaMogganum í síðustu viku að velta í prentun hefur minnkað ár frá ári. Guðjón segir stafræna prentun hins vegar í vexti.

„Það eru að koma fram öflugar prentvélar sem má nota til að prenta með skömmum fyrirvara og í því magni sem óskað er. Í eldri vélum byggðist einingaverð á því að prenta nógu mikið upplag í hvert skipti til að nýta vélarnar til fulls,“ segir Guðjón.

Hann telur aðspurður miklar líkur á samruna í greininni. „Það verður ekki hjá því komist. Ný tæki eru dýr og það þarf stórar einingar svo fjármagn fáist.“

Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Ólafs Þorsteinssonar ehf., segir samdrátt í prentiðnaði hafa hafist fyrir alvöru árin 2011 og 2012.

„Það birtist fyrst í því að eftir hrun minnkaði prentun á tímaritum mikið og sömuleiðis prentun á auglýsingapósti. Dagblöðum fækkaði og upplag þeirra og blaðsíðufjöldi dróst saman. Síðustu misseri hefur gengið valdið vandræðum. Bókaprentun hefur til dæmis liðið mikið fyrir sterkt gengi.“

Kynningarefni eykst á ný

„Stór hluti prentiðnaðarins er ekki að prenta tímarit, fjölpóst eða bækur en lifir á því að þjónusta fyrirtæki og einstaklinga. Þar hefur sömuleiðis orðið mikil breyting á. Það er til dæmis af sem áður var að reikningur sé gefinn út í fjórriti. Nú er hann kannski aðeins gefinn út í einriti. Mörg fyrirtæki drógu mikið úr útgáfu alls kyns kynningarefnis. Nú eru þó skýr merki um verulega aukningu á því sviði,“ segir Stefán.

Hann segir verð á innfluttum pappír hafa lækkað um allt að 20% síðustu 18-24 mánuði. Kostnaðarhækkanir, m.a. vegna launahækkana, hafi vegið það upp. Hlutur pappírs í framleiðslukostnaði bóka sé að jafnaði ekki yfir 25%.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK