„Höfum trú á að þetta fari að breytast“

Björgólfur Jóhannsson hefur verið forstjóri Icelandair Group frá ársbyrjun 2008
Björgólfur Jóhannsson hefur verið forstjóri Icelandair Group frá ársbyrjun 2008 mbl.is/Golli

„Heilt yfir stendur félagið vel, við höfum verið sjá bætingu frá áætlunum okkar og hækkuðum afkomuspána. Sjóðstreymið er sterkt og efnahagsreikningur öflugur þannig að félagið er í góðri stöðu til að takast á við áskoranir framtíðarinnar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á mbl.is í gær að af­komu­spá fyr­ir­tæk­is­ins hafi verið hækkuð í 150-160 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala en hún var einnig hækkuð á fyrsta árs­fjórðungi. Farþegum hef­ur fjölgað og sæta­nýt­ing auk­ist. 

Launakostnaður á öðrum ársfjórðungi hækkaði um 39% milli ára. Spurður um ástæður þessara hækkana telur Björgólfur upp nokkur atriði. 

„Stærsti liðurinn er breyting á íslensku krónunni vegna þess að við erum að gera upp í dölum en borgum í krónum. Það eru aukin umsvif, meðalstarfsmannafjöldi er rétt tæp 4.000 eins og er miðað við 3.600 í fyrra. Síðan höfum við lagt áherslu á upplýsingatækni sem hefur í för með sér kostnað en einnig tækifæri til að draga úr honum.“

Hann bætir við að seinkanir í flugferða í júní sé einnig þáttur í launakostnaðinum. Keflavíkurflugvöllur verði tiltölulega þröngur þegar umsvifin aukast um sumarið. Það kalli á fleiri hendur og yfirvinnu, og býst Björgólfur við að áhrifanna gæti áfram út ágúst. 

Dregur úr minnkun meðaltekna

Meðaltekjur á hvern farþega á hvern kílómetra hafa farið lækkandi með aukinni samkeppni en þó hefur dregið úr lækkuninni. Björgólfur hefur trú á að viðsnúningur sé í nánd. 

„Meðaltekjurnar hafa verið lækkandi og það var meginástæða fyrir þeirri afkomuviðvörun sem var gefin út í febrúar 2017. Eins og kom fram í uppgjörinu er minni lækkun á milli ára á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta. Það er spurning hvort botninum sé náð en við höfum trú á því að þetta fari að breytast.“

Bjóða meira val

Hlutabréfaverð Icelandair náði hámarki um mitt síðasta ár eftir margra ára uppsveiflu en síðan þá hefur verðið meira en helmingast. Björgólfur segir að Icelandair sé að ráðast í viðeigandi aðgerðir til þess að keppa við lággjaldaflugfélög eins og WOW air sem hafa raskað markaðinum. 

Leikreglurnar hafa verið að breytast, það eru nýir aðilar að koma inn með öðruvísi nálgun á viðskiptavininn. Hefðbundin félög hafa svarað með verðlækkunum en flest eru að vinna í að laga viðskiptamódelið þannig að viðskiptavinurinn geti keypt sér þá þjónustu sem hann óskar. Við erum ekki að fara í lággjaldabransann heldur að breyta uppsetningunni hjá okkur þannig að fólk hafi meira val.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK