Spá allar óbreyttum stýrivöxtum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Greiningardeildir stóru bankanna þriggja spá allar því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun sem verður kynnt í næstu viku.

Greiningardeild Íslandsbanka telur að versnandi verðbólguhorfur, og þar með líkur á minna aðhaldi peningastefnunnar, vegna veikingar krónu frá júníbyrjun „muni gera gæfumuninn“ og að á sama tíma sé þörf fyrir nokkurt peningalegt aðhald, „enda er verulegur gangur í hagkerfinu, laun og íbúðaverð hafa hækkað allhratt, og ekki lítur sérstaklega út fyrir að opinber fjármál og vinnumarkaður leggi hagstjórninni aukið lið á næstunni,“ segir í samantekt deildarinnar.

Mikið vatn runnið til sjávar

Hagfræðideild Landsbankans tekur í sama streng og bendir á að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar þann 14. júní. „Það helgast af mjög mikilli veikingu á gengi krónunnar á tímabilinu. Þannig hefur gengisvísitalan hækkað um 12% frá síðasta fundi. Peningastefnunefndin er á alveg nýjum slóðum að þessu leyti enda er þetta mesta lækkun krónu gagnvart evru milli funda peningastefnunefndar frá því hún tók til starfa á vormánuðum 2009,“ segir í samantekt deildarinnar.

Jafnframt er bent á að milli tveggja fyrstu funda nefndarinnar í mars og apríl 2009 hækkaði gengisvísitalan um 11,3% og þá lækkaði nefndin reyndar vexti milli funda en staðan þá er engan veginn sambærileg við núverandi aðstæður enda voru nafnvextir þá 17%, gjaldeyrishöftum hafði verið komið á og mikill framleiðsluslaki til staðar.

„Þriðja mesta lækkun gengisins þarna á eftir var milli ágúst- og októberfunda árið 2012 en þá hækkaði gengisvísitalan um 6,5%. Þetta er því mun meiri veiking en nefndin á að venjast og athyglisvert hver framvirk leiðsögn nefndarinnar verður vegna þessa,“ segir í Hagsjá.

Hefur algjörlega haldið sér til hlés á gjaldeyrismarkaði

Greiningardeild Arion banka spáir einnig óbreyttum stýrivöxtum. „Þó að verðbólga sé áfram lítil, útlit sé fyrir að framleiðsluspenna fari dvínandi og ýmislegt annað hnígi að því að lækka megi vexti teljum við að peningastefnunefnd sitji á sér að þessu sinni,“ segir í samantektinni.

„Meginástæða þess að við teljum að vextir verði óbreyttir er að hækkun verðbólguálags og talsverð lækkun raunstýrivaxta, en hvort tveggja hefur vegið þungt í vaxtaákvörðunum undanfarið. Síðustu vikur hefur Seðlabankinn algjörlega haldið sér til hlés á gjaldeyrismarkaði sem kemur á óvart þar sem sveiflur hafa í gengi krónunnar í sumar hafa að okkar mati verið óhóflegar. Það verður fróðlegt að sjá hvort nefndin hafi sýn á gjaldeyrisinngripastefnu bankans horft fram á við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK