Klappir óska eftir skráningu á First North

Stjórn Klappa Grænna Lausna hf. hefur ákveðið að óska eftir skráningu hlutabréfa í félaginu á Nasdaq First North-markaði í Kauphöllinni nú í haust. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Klöppum. 

Í tilkynningunni segir að hugbúnaðarlausnir Klappa séu eitt af allra fyrstu upplýsingakerfum sinnar tegundar í heiminum á sviði umhverfismála og þeim sé ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og ríki við að byggja upp öfluga innviði til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru á því sviði.

Hugbúnaðurinn er skýjalausn sem felur það í sér að í kjölfar breytinga á umhverfislögum og reglugerðum þjóðríkja og yfirþjóðlegra stofnana er hugbúnaður hjá öllum viðskiptavinum uppfærður jafnóðum til samræmis við þær breytingar.

„Þannig geta viðskiptavinir Klappa treyst því að með notkun á hugbúnaði Klappa mæti þeir með skilvirkum hætti öllum þeim flóknu lagalegu kröfum, tengdum upplýsingagjöf og lögfylgni, sem innleiddar verða á komandi árum. Reynslan sýnir að auki að bein tenging er á milli betra vistspors og lægri rekstrarkostnaðar og því eru hugbúnaðarlausnirnar öflugt verkfæri til að lækka rekstrarkostnað, bæta orkunýtni og minnka úrgang en þetta eru lykilþættir þegar lækka þarf rekstrarkostnað og minnka kolefnisspor.“

Skráningin er háð skilyrðum og samþykki Kauphallarinnar um skráningu bréfa á Nasdaq First North en ekki verður efnt til útboðs á hlutabréfum eða skuldabréfum í aðdraganda skráningarinnar. Arion banki hefur umsjón með skráningu Klappa á Nasdaq First North-markaðinn í Kauphöllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK