Vilja samráð um merkingar á hvölum

Tækið er fest við sporð hnúfubaksins.
Tækið er fest við sporð hnúfubaksins. Árni Torfason

Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja hættu á því að merkingar á hvölum í vísindalegum tilgangi geti raskað atferli hvalanna. Óskað er eftir því að hvalaskoðunarfyrirtæki fái að gefa umsögn hjá þeim stofnunum sem veita leyfi fyrir merkingunum. 

Frétt mbl.is: Merkja fyrsta hnúfubakinn eftir fjögurra ára undirbúning

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands en greint var frá því á mbl.is að fyr­ir­tækið Líf­ríki ætli að festa sér­út­búið tæki við sporðinn á hnúfu­baki í rannsóknarskyni. 

Í tilkynningunni segir að stjórn samtakanna fagni auknum áhuga á hvalarannsóknum en sé þó hugsi yfir þeirri stöðu sem kom upp í Eyjafirði í lok júlí þegar tilraunamerkingar á hnúfubak á vegum Lífríkis fóru fram án vitneskju stjórnar og hagsmunaaðila á svæðinu.

Vakti undrun stjórnarmanna að heyra af tilraunum til merkinga á hnúfubak í Eyjafirði, sér í lagi vegna þess að engin kynning hafi átt sér stað meðal hagsmunaaðila á svæðinu. Merkingar muni óhjákvæmilega vekja spurningar hjá farþegum í hvalaskoðun.

Þá er óskað eftir að fá tækifæri til að gefa umsögn hjá viðeigandi stofnunum þegar leyfi til merkinga og rannsókna á hvölum eru tekin fyrir. 

Tilkynningin í heild sinni:

„Stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands fagnar auknum áhuga á hvalarannsóknum en er þó hugsi yfir þeirri stöðu sem kom upp í Eyjafirði í lok júlí þegar tilraunamerkingar á hnúfubak á vegum Lífríkis fóru fram án vitneskju stjórnar og hagsmunaaðila á svæðinu.

Á aðalfundi Hvalaskoðunarsamtaka Íslands fyrir nokkrum árum kynnti Magnús Jónatansson fyrirætlanir Lífríkis um að koma langtímamerkingu á hnúfubak. Á þeim tíma voru merkin enn á þróunarstigi og alls óvíst hvert framhaldið yrði.

Nokkur samskipti hafa átt sér stað síðan og hefur stjórnin ítrekað lýst yfir áhuga á að fylgjast með þróun mála. Það vakti því undrun stjórnarmanna að heyra af tilraunum til merkinga á hnúfubak í Eyjafirði, sér í lagi að engin kynning hafi átt sér stað meðal hagsmunaaðila á svæðinu áður en tilraunir til merkinga hófust.

Einnig þótti stjórnarmönnum miður að hafa ekki fengið boð á kynningarfund sem haldinn var miðvikudaginn 16. ágúst sl., í kjölfar tilraunanna í Eyjafirði.

Merkingar sem þessar, þar sem komið er fyrir frekar stórum sendi á sporð hvals, fela í sér hættu á röskun atferlis hvalanna á háannatíma hvalaskoðunar á svæðinu og munu auk þess óhjákvæmilega vekja spurningar hjá farþegum í hvalaskoðun.

Fregnir af því að svipuð staða sé í uppsiglingu á Skjálfanda vekja einnig undrun stjórnarmanna sem vilja því ítreka þá afstöðu að heppilegra sé að gera hagsmunaaðilum grein fyrir fyrirhuguðum merkingum áður en tilraunir til merkinga eru framkvæmdar.

Nánari kynning á rannsóknarverkefninu sem og möguleiki hagsmunaaðila á að koma á framfæri athugasemdum getur skilað rannsóknaraðilum ábendingum um hvernig best sé að standa að slíkum merkingum svo minnst röskun verði fyrir hvalina og þá sem stunda hvalaskoðun á svæðum sem fyrirhugað er að merkja hval(i) á.

Samstarf við hvalaskoðunarfyrirtækin er jafnframt mikilvægur þáttur í eftirfylgni tilraunamerkingar sem þessarar enda eru hvalaskoðunarfyrirtækin í einstakri stöðu til að fylgjast með hegðun merktra hvala á tilteknum hvalaskoðunarsvæðum.  

Stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands óskar því, fyrir hönd hagsmunaaðila í hvalaskoðun, eftir auknu samtali við þá sem hyggjast merkja hvali og stunda aðrar rannsóknir á þeim. Jafnframt óskar stjórnin eftir því að fá tækifæri til að gefa umsögn hjá viðeigandi stofnunum þegar leyfi til merkinga og rannsókna á hvölum eru tekin fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK