Bílanaustshúsið verður að heilsumiðstöð

Sex fyrirtæki leigja nú rými í atvinnuhúsnæðinu Höfða við Bíldshöfða 9. Aðeins um 20% rýmis eru nú laus til útleigu, en öll efri hæð hússins hefur nú verið leigð út. Í nágrenni hússins eru breytingar í farvatninu, en unnið er að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir um tíu til fimmtán þúsund manna byggð á Ártúnshöfða á næstu árum. Höfði er í eigu fasteignafélagsins Heildar.

„Húsið er 9.500 fermetrar og það hefur gengið betur að leigja þetta allt út en við vonuðumst til. Útlit er fyrir að við klárum þetta fyrir veturinn,“ segir Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri Heildar.

Fyrirtækin sem nú starfa í húsinu eru Apótekarinn, sem selur lyf og aðrar heilsutengdar vörur, Flexor, fyrirtæki sem framkvæmir göngugreiningu, veitir lausnir við stoðkerfisvandamálum og selur stuðningshlífar og skó, Heilsuborg, alhliða heilsumiðstöð sem býður upp á líkamsrækt og heilbrigðisþjónustu, Heilsugæslan Höfða, Röntgen Domus, sem opnar nú í haust og býður upp á röntgenrannsóknir auk tölvusneiðmynda og ómskoðunar og Örninn golfverslun, sem selur golfvörur.

Spurður hvort ráðgert sé að í öllu húsinu verði þjónusta tengd heilsu og hreyfingu, svarar Pétur að ráðgert sé að öll efri hæð hússins verði lögð undir slíka starfsemi, en efri hæðin er nú fullsetin.

„Efri hæðin er hugsuð sem heilsukjarni og sú neðri er hugsuð undir verslanir og þjónustu. Nú eru þrjár verslanir á neðri hæðinni, Apótekarinn, Flexor og Örninn og fleiri væntanlegar,“ segir hann.

Stærsta uppbyggingarsvæði í borginni

„Við horfum á þetta verkefni sem fyrstu innviðina fyrir svæðið. Þarna á að rísa fimmtán þúsund manna byggð. Þetta er hverfi sem er að breytast úr hráu iðnaðarhverfi í íbúðarhverfi á næstu árum,“ segir Pétur.

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli Heildar og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Höfðahverfinu og hefur Heild einnig til leigu rými í um þrettán þúsund fermetra skrifstofuhúsi að Dverghöfða 4 sem nú er í byggingu. Einnig er í umráðum Heildar um 23.450 fermetra lóð, Bíldshöfði 9a.

„Við þekkjum þetta svæði vel og veltum uppbyggingunni mikið fyrir okkur. Eins og staðan er núna verður þetta stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur næsta áratuginn,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK