Gefa hvorki upp magn né kaupendur

Stæða af viðarflísum fyrir utan verksmiðju United Silicon í Helguvík. …
Stæða af viðarflísum fyrir utan verksmiðju United Silicon í Helguvík. Flísarnar eru notaðar ásamt kolum til að kynda ljósbogaofn verksmiðjunnar þar sem kísillinn er framleiddur. mbl.is/Rax

Stjórnendur United Silicon í Helguvík vilja ekki gefa upp hversu mikinn kísil búið er að framleiða í verksmiðju þeirra frá því að hún var gangsett í nóvember á síðasta ári. Slíkt verði aðeins gert árlega og upplýsingunum m.a. komið til Hagstofu Íslands. Einn ofn er nú í verksmiðjunni og var áætluð ársframleiðsla hans um 20-23 þúsund tonn. „Framleiðslan er umtalsvert minni en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon. Skýringin felst í erfiðum rekstri ljósbogaofnsins. Bilanir hafa ítrekað komið upp og slökkt hefur verið á ofninum í lengri og skemmri tíma. Enn er slökkt á honum eftir að heitur kísill flæddi um gólf ofnhússins á laugardag. 

Fyrirtækið gefur heldur ekki upp hverjir séu kaupendur kísilsins að öðru leyti en því að þeir séu í Evrópu. Talsmaður fyrirtækisins segir að viðskiptasamningar sem gerðir voru standi enn þrátt fyrir þá erfiðleika sem komið hafa upp í rekstrinum. „Menn hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þessu, þegar verið er að koma þessu í gang,“ segir Kristleifur. „Það er ekki búið að slíta neinum samningum vegna þessa.“

Biðja um lengri frest

United Silicon er nú í greiðslustöðvun. Kröfuhafar hafa verið boðaðir til fundar á morgun, fimmtudag, þar sem útskýrt verður hvernig félagið vill standa að fjárhagslegri endurskipulagningu. „Nú er verið að taka ákvörðun um það hvað eigi að bjóða í nauðasamningi eða hvaða leiðir eigi að fara,“ segir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður sem hefur það hlutverk að aðstoða félagið á greiðslustöðvunartíma. Nauðasamningaferlið sé því ekki enn hafið.

Eftir helgina verður farið fram á lengri frest til að ná samningum við lánardrottna. Stærstur þeirra er Arion banki sem hefur lagt fyrirtækinu til um níu milljarða króna. Þrír lífeyrissjóðir hafa jafnframt fjárfest í United Silicon. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði til 1,2 milljarða, Festa um 875 milljónir og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna 113 milljónir. Fjárfestingar sjóðanna þriggja nema samtals um 2,2 milljörðum króna.

Þá skuldar fyrirtækið ÍAV einn milljarð króna samkvæmt niðurstöðu gerðardóms frá því fyrr í sumar. Einnig skuldar United Silicon Reykjanesbæ 162 milljónir króna.

Úr tveimur ofnum í einn

Samkvæmt starfsleyfi United Silicon, sem gefið var út af Umhverfisstofnun í október árið 2015, var fyrirtækinu heimilt að framleiða í tveimur ljósbogaofnum allt að 100.000 tonnum á ári af hrákísli. Í mars á þessu ári, í kjölfar margra frávika í framleiðslunni og kvartana um mengun frá íbúum, var starfsleyfið takmarkað við einn ofn. Fyrirtækið fyrirhugar að starfrækja fjóra ofna í verksmiðju sinni þegar fram líða stundir og miðar skýrsla um mat á umhverfisáhrifum við það.

Á heimasíðu United Silicon segir að fyrirtækið hafi verið stofnað árið 2014 af umhverfisverkfræðingnum Magnúsi Garðarssyni, vélaverkfræðingnum Helga Birni og hæstaréttarlögmanninum Friðbirni Garðarssyni. Að stofnuninni hafi komið hollensku viðskiptafélagarnir Silicon Mineral Ventures sem sjái um sölu og markaðsmál í gegnum fyrirtækið BIT Fondel sem hefur aðsetur við höfnina í Rotterdam. 

Mikil hreyfing á eignarhaldi

Í apríl var félagið Sameinað Silikon hf. (United Silicon) skráð hjá Credit Info í 99,9% eigu félagsins Kísill Ísland hf. og erlent félag, USI Holding B.V., var skráð fyrir 0,10% eignarhlut. Síðan þá hefur margt gerst og síðar í þeim mánuði kom fram í frétt á vef United Silicon að hlutur Kísils Íslands hf. og Kísils III Slhf. væri 67,5% og þriðji stærsti hluthafinn væri Arion banki með tæplega 11% hlut. Frjálsi lífeyrissjóðurinn átti þá 5,6% og Festa lífeyrissjóður 3,6%.

Enn átti eftir að verða hreyfing á eignarhlutum því í hálfsársuppgjöri Arion banka í síðustu viku kom fram að hlutur bankans í félaginu væri 16,3% og hefði verið færður niður að fullu. Var hluturinn metinn á einn milljarð króna í bókum bankans. Fram kom í uppgjörinu að bankinn hefði lánað félaginu 8 milljarða króna sem væru útistandandi og hann ætti nú í samræðum við félagið um að draga úr mögulegu framtíðartapi vegna lánsins. Ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort að færa ætti lánið einnig niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK