Ólíkar afkomur skyndibitastaða

Hamborgarafabrikkan, Höfðatorgi.
Hamborgarafabrikkan, Höfðatorgi. mbl.is/Styrmir Kári

Hagnaður Dominos á síðasta ári tvöfaldaðist samanborið við árið áður. Einnig jókst hagnaður Subway en Hamborgarafabrikkan og Hamborgarabúlla Tómasar horfðu upp á samdrátt.

Vörusala móðurfélags Pizza-Pizza ehf., sem á og rekur pítsukeðjuna Dominos hér á landi, nam 5,0 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 4,3 milljarða árið áður. Hagnaður félagsins nam 229 milljónum króna á árinu 2016, en var ríflega 106 milljónir árið áður. Samstæða Pizza-Pizza tapaði hins vegar 24,0 milljónum króna á síðasta ári. Félagið átti á tímabilinu m.a. 51% eignarhlut í Pizza Pizza A/S í Noregi, sem það seldi í mars á þessu ári til Dominos Pizza Group PLC í Bretlandi, sem á sama tíma eignaðist meirihluta í Pizza-Pizza. Eigið fé félagsins í árslok nam 594 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 42%.

Samlokur fyrir 2 milljarða

Sala Stjörnunnar hf., sem á og rekur samlokustaðinn Subway, nam rúmum 1,9 milljörðum króna á síðasta ári en tæplega 1,8 milljörðum árið áður. Rekstur félagsins skilaði hagnaði upp á 130 milljónir króna á árinu sem er tæpum 13 milljónum króna minni hagnaður en árið áður, þegar hagnaðurinn nam tæplega 143 milljónum króna.

Eigið fé félagsins nam rúmum 878 milljónum króna í árslok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið var 55%.

Fabrikkan hagnast minna

Seldar vörur Nautafélagsins ehf. sem á og rekur veitingahúsakeðjuna Hamborgarafabrikkuna á Höfðatorgi, í Kringlunni og á Akureyri, námu um 743 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 734 milljónir árið 2015. Félagið hagnaðist um tæpa hálfa milljón króna á síðasta ári en 8,7 milljónir árið áður. Félagið var samt sem áður með jákvæða skattfærslu á síðasta ári sem nam 3,4 milljónum króna. Eigið fé í árslok var 63,5 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 52%.

Minni sala hjá Búllunni

Sala Hamborgarabúllu Tómasar ehf. nam 127,0 milljónum króna í fyrra og dróst saman miðað við árið á undan, þegar hún nam 137,5 milljónum. Aðalstarfsemi fyrirtækisins er nafna- og vörumerkjaleiga, samkvæmt ársreikningi. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði var liðlega 28,2 milljónir króna en var til samanburðar 40,5 milljónir árið 2015. Hagnaður ársins var 14 milljónir króna. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK