Sér deilibíla leika stórt hlutverk í Reykjavík

Fyrst um sinn verða fjór­ir Zipcar-bíl­ar af gerðinni Hyundai i-10 …
Fyrst um sinn verða fjór­ir Zipcar-bíl­ar af gerðinni Hyundai i-10 aðgengi­leg­ir á sér­stak­lega merkt­um stæðum við Há­skól­ann í Reykja­vík og Land­spít­al­ann. Ljósmynd/Geiri

Deilibílaþjónustan Zipcar hóf á dögunum rekstur á Íslandi og varð Reykja­vík þar með fyrsta borg­in á Norður­lönd­un­um þar sem boðið er upp á þjón­ustu fyr­ir­tæk­is­ins. Dirk Bogaert er forstöðumaður aðgerðasviðs hjá Zipcar.

„Við höfum verið að skoða nýja markaði til að sækja á. Ísland er að sumu leyti óhefðbundinn markaður, bæði vegna þess að það er eyja og vegna þess að þar er hátt hlutfall bifreiða á hvern íbúa. Við töldum að þetta væri verðug áskorun,“ segir Bogaert. 

Fyrsti bíllinn var ræstur í byrjun vikunnar hjá Háskólanum í Reykjavík en hug­mynd­in geng­ur út á að not­end­ur geti nálg­ast bíla til að nýta í stutt­ar ferðir allan sólarhringinn. 

„Hugmyndin er einföld. Þegar ég á ekki bíl eða þegar bíllinn er ekki til staðar, til dæmis þegar elsti sonurinn er að nota hann og ég hef ekki hugmynd hvenær hann kemur aftur, þá get ég notað appið og séð hvar næsti Zipcar-bíll er. Ég panta hann og geri það sem þarf að gera, hvort sem það er að versla, ná í einhvern á flugvöllinn eða keyra son minn í afmæli. Þegar ég þarf ekki lengur á bílnum að halda skila ég honum til baka.“

Deiliþjónusta sem þessi er ekki einungis ábatasöm fyrir viðskiptavini heldur getur hún einnig haft jákvæð áhrif á borgina í heild sinni. Bogaert vísar til rannsókna sem sýna að hver deilibíll fyrirtækisins komi í stað 13 einkabíla á götunum og dragi því töluvert úr útblæstri og bílaumerð. 

„Deilibílar gera fólki kleift að nota bíl án þess að eiga hann en Reykjavík eins og aðrar borgir horfir á hvernig við ætlum að haga samgöngum í framtíðinni. Deilibílar eru ekki eina lausnin en þeir eru stór þáttur og við vonum að þeir verði mikilvægur hluti af samgöngum í Reykjavík, að Zipcar verði einn af valkostunum sem fólk hugsar um þegar það ákveður hvert það ætlar að fara og hvernig.“

Þjónustan aðlagist borgunum

Þegar búið er að kaupa bíl er hann orðinn sjálfgefinn samgöngumáti. Bílinn er notaður vegna þess að það er hvort eð er búið að borga fyrir hann. Bogaert segir að markmiðið sé að skera á þessa keðju og breyta hugsunarhættinum. 

„Í fyrstu fannst fólki þetta dálítið furðulegt. Þegar við útskýrðum þjónustuna sögðu margir að þeir þekktu einhvern sem hefði gagn af henni en þá reyndum við að útskýra hvers vegna þeir sjálfir hefðu gagn af henni. Nú er fleiri að átta sig á því að þeir þurfa ekki endilega að eiga bíl. Ég held að fólk spái nú meira í hvað það geti gert fremur en hvað það geti átt.“

Spurður hvað geri borgir fýsilegri en aðrar fyrir deilibíla segir Bogaert að ákveðinn þéttleiki og innviðir þurfi að vera til staðar. Þá sé einnig mikilvægt að yfirvöld og stofnanir hafi opinn hug gagnvart valkostum í samgöngum. Hann segir mikilvægt að nýta staðbundna þekkingu samstarfsaðila í hverri borg fremur en að miðstýra aðgerðum frá höfuðstöðvum. 

„Lönd eru ólík á margvíslegan hátt. Þau eru ólík þegar kemur að umgjörð, til dæmis tryggingum og ökuskírteinum, en ekki síður að því leyti hvað fólk vill. Þess vegna skiptir miklu máli að vinna með fólki og fyrirtækjum til þess að aðlaga þjónustuna hverri borg. Það er ekki hægt smíða eina lausn og heimfæra á allar borgir.“

Greitt er mánaðarlegt áskrif­ar­gjald og akst­urs­gjald en Zipcar sér um …
Greitt er mánaðarlegt áskrif­ar­gjald og akst­urs­gjald en Zipcar sér um rest. Ljósmynd/Geiri

Vilja vera í framlínunni

Zipcar hefur und­ir­ritað sam­starfs­samn­ing við Orku nátt­úr­unn­ar um rekst­ur og um­sjón hleðslu­stöðva fyr­ir raf­bíla. Fyrirtækið fylgist grannt með þróun rafbíla, sem og þróun sjálfkeyrandi bíla, en Bogaert telur að Zipcar geti leikið hlutverk í innreið umhverfisvænni samgöngumáta. 

„Það hefur verið hröð framþróun í rafbílaiðnaðinum þar sem rafhlöður verða betri með hverju ári og verðið lækkar. Þegar þú kaupir bíl þarftu að velja eina tegund en við getum veitt valmöguleika á að nota rafbíl þegar það hentar eða bensínbíl þegar það hentar betur. Ég er ekki með kristalkúlu en við erum að búa okkur undir að vera mikilvægur þáttur í þessari þróun. Við viljum vera í framlínunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK