Borgin skipar samninganefnd við Airbnb

Airbnb er átta ára gamalt fyrirtæki og nú metið á …
Airbnb er átta ára gamalt fyrirtæki og nú metið á 3.600 milljarða. AFP

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í morgun að stofna samninganefnd sem mun hefja viðræður við ferðaþjónustufyrirtækið Airbnb. Samninganefndin mun taka mið af samningum sem borgirnar Amsterdam og London hafa gert við Airbnb.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni en það segir að sóttur sé lærdómur til annarra hraðvaxandi ferðamannaborga, t.d. Barselóna, Parísar, Stokkhólms og Amsterdam. Með samningum við Airbnb verði hægt að fá betri upplýsingar um ólöglega gistingu. Þá geti vefsíðan hindrað eigendur húsnæðis sem séu ekki með formlegt leyfi til gististarfsemi umfram 90 daga regluna í því að leigja út eignir sínar umfram þann dagafjölda.

Í samningum Airbnb við borgaryfirvöld í London og Amsterdam er m.a. kveðið á um að þak sé sett á skráningu eigna við ákveðinn dagafjölda (60 eða 90 daga). Ef ætlunin er að bjóða eignina til lengri leigu þarf að afhenda Airbnb afrit af gistileyfum og skráningarnúmer.

Reykjavíkurborg verður fyrsti opinberi aðilinn á Íslandi til að nálgast Airbnb á þennan hátt að því er kemur fram í tilkynningunni. Stofnun samninganefndarinnar er á grunni tillagna starfshóps um heimagistingu sem skipaður var af borgarstjóra sumarið 2016 og skilaði tillögum í júní 2017.

Samninganefndin verður skipuð skrifstofustjóra borgarstjórnar sem verður formaður, fulltrúa frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og fulltrúa borgarlögmanns. Nefndin mun hafa heimild til að leita eftir sérfræðiráðgjöf í alþjóðlegri samningagerð en mun einnig leita eftir ráðgjöf innan borgarkerfisins hjá aðilum sem hafa sérþekkingu á viðfangsefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK