70 milljóna þrot eftir rekstur Metró

Skyndibitastaðurinn Metró.
Skyndibitastaðurinn Metró.

Lýstar kröfur í þrotabú Lífs og heilsu ehf. námu samtals um 129 milljónum króna, en um 60 milljónir fengust upp í kröfurnar. Nam þrotið því um 70 milljónum króna, en félagið rak áður skyndibitastaðinn Metró. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2013, en árið 2015 var eigandi staðarins dæmdur í árs fangelsi fyrir skattsvik sem tengdust staðnum.

Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu voru forgangskröfur rúmlega 18 milljónir, almennar kröfur tæplega 111 milljónir og eftirstæðar kröfur upp á 426 þúsund.

Forgangskröfur fengust að fullu greiddar sem og tæplega 42 milljónir upp í almennar kröfur, eða 37,72%. Ekkert fékkst greitt upp í eftirstæðar kröfur.

Skiptalokum á þrotabúi eiganda staðarins, Jóns Garðars Ögmundssonar, var lokið í byrjun síðasta árs, en ekkert fékkst greitt upp í 166 milljóna króna kröfur.  Hann hafði sem fyrr segir áður verið dæmdur í fangelsi vegna skattsvika. Annars vegar var um að ræða skattsvik á árunum 2009 og 2010 og hins vegar vegna áranna 2011 og 2012. Í síðara skiptið tengdust brotin Lífi og heilsu.

Bæði brotin tengdust því að hann hafði ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda sem hann hafði haldið eftir af launum starfsmanna.

Áður rak Jón Garðar McDonalds á Íslandi í gegnum einkahlutafélagið Lyst ehf., en eftir hrun fjármálakerfisins breytti hann rekstrinum. Gjaldþrotaskiptum á félaginu var lokið í mars 2013, en gjaldþrotið nam 370 milljónum. Fyrra brotið tengdist þessu félagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK