Boða beint flug til Toronto

Primera Air hefur tilkynnt að fyrirtækið hefji á nýju ári flug til Toronto í Kanada, en um er að ræða  nýjan áfangastað í Norður-Ameríku frá nýjum starfsstöðvum fyrirtækisins í London Stansted, Birmingham og París.

Flogið verður þrisvar í viku milli Toronto (YYZ), Birmingham og London og fjórum sinnum í viku til og frá Toronto til Parísar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Primera Air.

Flug frá nýju starfsstöðvum Primera til Kanada hefjast í maí 2018 og verður flogið allt árið um kring. Primera Air mun bjóða þrjú flug vikulega, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum, frá London Stansted og Birmingham, og fjögur flug vikulega, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum, frá París (CDG). Miðar eru þegar komnir í sölu og lægstu verðin fást á www.primeraair.com.

Fyrr í sumar tilkynnti flugfélagið að það hygðist fljúga daglega til New York og til Boston fjórum sinnum í viku frá öllum þremur flugvöllum. Á næstu tveimur árum mun Primera Air auka framboð sitt frá megináfangastöðum sínum, opna nýjar flugleiðir á milli landa og nýjar starfsstöðvar þar sem flugfélagið hefur lagt inn pöntun fyrir 20 nýjum Boeing Max9-ER-vélum, til viðbótar við þær 8 Airbus-vélar sem félagið fær afhentar á næsta ári.

Primera Air starfrækir áætlunarflug og flýgur til yfir 70 áfangastaða í Evrópu, á Kanaríeyjum og í Austurlöndum nær. Primera Air er með höfuðstöðvar í Danmörku og Lettlandi og er hluti af Primera Travel Group, sem samanstendur af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Eistlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK