Vextir á íbúðalánum sjaldan verið lægri

Vextir á verðtryggðum og óverðtryggðum íbúðalánum hafa farið lækkandi undanfarin …
Vextir á verðtryggðum og óverðtryggðum íbúðalánum hafa farið lækkandi undanfarin misseri og hafa sjaldan verið lægri mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vextir á verðtryggðum og óverðtryggðum íbúðalánum hafa farið lækkandi undanfarin misseri og hafa sjaldan verið lægri, að því er fram kemur í greiningu hagdeildar Íbúðalánasjóðs. Er nú svo komið að vextir á íbúðalánum hafa mikið að segja um hvernig verðbólga mun þróast næstu misserin, „enda er óvenjustór hluti verðbólgunnar háður húsnæðisverði um þessar mundir,“ að því er segir í greiningunni.

Hærri vöxtum fylgir að dýrara er fyrir fólk að taka há lán og leiða þeir því að öðru óbreyttu til minni hækkunar íbúðaverðs. Lægri vextir gera fólki hins vegar auðveldara um vik að ráða við greiðslubyrði af háum lánum og geta vaxtalækkanir því stuðlað að hærra íbúðaverði.

Bæði verðtryggðir og óverðtryggðir vextir hafa lækkað, en óverðtryggðir vextir íbúðalána hafa lækkað hvað mest hér á landi undanfarin ár. Frá því í janúar 2016 til janúar 2017 lækkuðu lægstu óverðtryggðu vextirnir úr 6,75% í 5,87%.

Það sem af er þessu ári hafa bæði óverðtryggðir og verðtryggðir vextir lækkað, en í upphafi þessa árs voru lægstu breytilegu verðtryggðu vextir íbúðalána 3,15% og í byrjun október voru þeir komnir í 2,77%. Þess má geta að meirihluti íbúðalána er verðtryggður.

„Síðustu mánuði hefur verulega hægt á hækkunum húsnæðisverðs og hefur það haft talsverð áhrif á þróun verðbólgu. Stýrivextir Seðlabankans hafa áhrif á íbúðaverð og hlýtur fasteignamarkaðurinn að vega nokkuð þungt í vaxtaákvörðunum bankans um þessar mundir,“ er haft eftir Ólafi Heiðari Helgasyni, hagfræðingi í hagdeild Íbúðalánasjóðs.

Skoðanakannanir meðal einstaklinga í fjármálageiranum bendi jafnframt til þess að þeir hafi væntingar um lægri langtímavexti en áður. Það verði því áhugavert að fylgjast með því hvernig vextir íbúðalána þróist næstu misserin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK