Dýrasta fasteign heims

Château Louis XIV
Château Louis XIV Wikipedia

Krónprinsinn í Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, er eigandi dýrustu fasteignar heims samkvæmt frétt New York Times. Um er að ræða franskan kastala en ráðgáta hefur ríkt um hver keypti kastalann árið 2015 á 300 milljónir bandaríkjadala, 31,8 milljarða króna.

Kastalinn, Chateau Louis XIV, var keyptur í gegnum fjölmörg skúffufyrirtæki og fjárfestingarfélög í Lúxemborg og víðar en prinsinn kemur víða við í fjárfestingum sínum á sama tíma og hann segist berjast gegn spillingu í heimalandinu. 

Þegar kastalinn var seldur fyrir tveimur árum sagði Fortune tímaritið hann vera dýrasta heimili heims og voru birtar myndir í tímaritum af gullslegnum gosbrunnum, marmarastyttum og völundarhúsi á lóð kastalans. En hvergi kom fram hver kaupandinn var fyrr en New York Times greindi frá því um helgina.

Sádi-Arabískir prinsar hafa verið frekir til fjárins að undanförnu en meðal annars hafa borist fregnir af kaupum á snekkju á 500 milljónir bandaríkjadala og að sjálfsögðu málverkið eftir Leonardo da Vinci á 450 milljónir dala. 

Kastalinn er ekki langt frá Versölum, vestur af höfuðborginni, París. NYT hefur nú fengið það staðfest af ráðgjöfum konungsfjölskyldunnar í Sádi-Arabíu að prinsinn hafi keypt kastalann. Rannsóknarblaðavefurinn Mediapart komst að sömu niðurstöðu og NYT í júlí án þess að fá það staðfest að prinsinn ætti kastalann. 

Ýmislegt er hægt að gera sér til dundurs í kastalanum til að mynda er hægt að stjórna gosbrunnunum með iPhone, skreppa í bíó eða fá sér sundsprett í sundlaugum á landareigninni.

Við fyrstu sýn virðist kastalinn vera kominn til ára sinna en raunin er önnur. Því eigendurnir rifu gamla kastalann til grunna og byggðu nýtt hús. 

Hér er hægt að skoða myndir og lesa meira um kastalann

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK