Á aðalfundi Landsvirkjunar var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til ríkisins að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2017. Það er sama upphæð og var greidd fyrir árið 2016.
Landsvirkjun hagnaðist um 11,2 milljarða króna á síðasta ári en það er töluvert meiri hagnaður en árið áður þegar hann nam 6,7 milljörðum króna.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, gaf út í vor að Landsvirkjun gæti greitt 110 milljarða króna í arð til ríkisins á árunum 2020 til 2026 þar sem fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins hefði aukist á síðustu árum. Arðgreiðslugetan væri um tíu til tuttugu milljarðar á ári.
Arðgreiðsla Landsvirkjunar fyrir árið 2016 nam einnig 1,5 milljörðum króna. Í samtali við Ríkisútvarpið fyrir um ári síðan sagði Hörður að Landsvirkjun stefndi að því að auka arðgreiðslur sínar til ríkisins árið 2018.
Á aðalfundinum, sem haldinn var í dag, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið.
Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir aðalfund var Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn formaður stjórnar og Álfheiður Ingadóttir var kjörin varaformaður.
Úr stjórn fóru Haraldur Flosi Tryggvason, Kristín Vala Ragnarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2017.