Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur samþykkt að vísa til borgarráðs tillögu Teiknistofu arkitekta um breytingar á deiliskipulagi Barónsstígs vegna lóða við Barónsstíg 2-4.
Barónsstígur 2 er steinsteypt hús sem stendur við Skúlagötu og var upphaflega byggt sem verksmiðja. Þar er í dag Fosshótel. Heimilt er að stækka húsið með því að framlengja 1. hæð til suðurs undir inngarð, að nýjum bílakjallara, og lyfta lóð sunnan við hús sem því nemur. Þá er gert ráð fyrir inngangi á jarðhæð frá Barónsstíg en þeim megin gætu verslanir, veitingastaðir eða gistiþjónusta verið í húsinu.
Engar íbúðir eru í húsinu eins og er, en gert er ráð fyrir að þær geti orðið í kringum 20 þegar framkvæmdum lýkur.
Barónsstígur 4, Barónsfjós í austurenda lóðarinnar á horni Hverfisgötu og Barónsstígs, er friðuð bygging en hún hýsir verslun 10-11 í dag. Lagt er til að hún verði gerð upp og viðbygging við hana rifin til að rýma fyrir viðbyggingunni við hús númer 2.
Deiliskipulagsbreytingarnar eru hluti af umfangsmiklum breytingum á svæðinu, sem nefnt hefur verið Barónsreiturinn og afmarkast af Skúlagötu í norðri, Barónsstíg í austri, Hverfisgötu í suðri og Vitastíg í vestri.
Tvær samtengdar nýbyggingar, fjögurra og fimm hæða, eru hugsaðar við suðvesturmörk lóðarinnar og þvert yfir hana miðja. Þá kemur einnar hæðar tengibygging niður vesturmörk lóðarinnar upp við Kex Hostel.
Byggingar svæðisins munu afmarka nýtt torg aðliggjandi Hverfisgötu. Íbúðir verða á efri hæðum vestan við torgið, að Hverfisgötu og stefnt á að gisting víki úr Barónsfjósinu og útgangur til vesturs verði opnaður út á torgið. Þá verði spennistöð á miðri lóðinni færð út í lóðarmörk.