210.900 manns voru á vinnumarkaði hér á landi í mars sl. samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Var árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka 82,7%, sem er 1,9 prósentustigum meira en í febrúar. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu voru atvinnulausir 6.200 í mars, eða 2,9%, og er það 0,3 prósentustigum lægra en mánuðinn á undan. Þá jókst leiðrétt hlutfall starfandi fólks um 2,1 prósentustig, eða í 80,2% fyrir mars 2019.
Þegar horft er til síðustu sex mánaða sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuþátttaka stendur í stað. Hlutfall starfandi minnkaði lítillega eða um 0,1 prósentustig og atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig.
Samkvæmt óleiðréttum mælingum voru að jafnaði 208.400 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í mars 2019 og jafngildir það 81,8% atvinnuþátttöku (með 2,4% vikmörkum).
Samanburður mælinga fyrir mars 2018 og 2019 sýnir fjölgun um 5.300 manns í hópi vinnuafls, en fjölgun mannfjölda á þessum sama tíma nam 0,4 prósentustigum. Starfandi fólki fjölgaði um 4.000, en hlutfallið lækkaði um 0,1 prósentustig, frá því á sama tíma árið 2018.
Atvinnulausir í mars 2019 voru um 1.400 fleiri en á sama tíma 2018 er þeir voru 4.600, eða 2,3% af vinnuaflinu. Alls voru 46.300 utan vinnumarkaðar í mars 2019 og er það sami fjöldi og í mars árið áður.