Íslensk stjórnvöl hafa mögulega gengið of langt í lagasetningu sem hefur það markmið að takmarka erlent eignarhald á jörðum, því lögin ná jafnframt yfir fasteignir og gera erlendum aðilum sem koma hingað og starfa erfitt að kaupa sér húsnæði.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Dagmála, sem sýndur er á mbl.is í dag, þar sem þær Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, um niðurstöður árlegrar samkeppnisúttektar IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja sem birt var í síðustu viku. Ísland bætir stöðu sína og færist upp um fimm sæti, úr 21. í 16. sæti. Íslendingar reka þó enn lestina í samanburði við hin norrænu löndin, þar sem Danmörk er fremst meðal þjóða.
„Þetta er ótrúlega þversagnarkennt, það verður að segjast eins og er,“ segir Svanhildur Hólm aðspurð um fjárfestingar erlendra aðila í fasteignum og jörðum hér á landi.
„Okkur vantar fleiri erlenda sérfræðinga, við erum hér tilbúin til þess að leyfa fólki að starfa án staðsetningar þannig að þú getir búið hér og unnið hjá einhverju fyrirtæki í Sílikondalnum – en þú mátt samt ekki kaupa þér íbúð í blokk án þess að fá uppáskrifað hjá ráðherra.“
Lilja Dögg segist vera sammála því að það þyrfti að laga, og segir inntaka laganna eiga að snúa að stórum jarðakaupum. Hún segir jafnframt að fleiri ríki séu með takmörk á því hvort erlendir aðilar geti keypt jarðir. Þá er einnig rætt um hvort og þá hvernig hægt sé að auka við erlendar fjárfestingar hér á landi, sem þær eru báðar sammála um að þurfi að gera.