Twitter er í dag metið á tæplega helming þeirrar fjárhæðar sem Elon Musk greiddi fyrir félagið. Aðeins sex mánuðir eru síðan Musk keypti samfélagsmiðilinn.
Í dag er fyrirtækið metið á 20 milljarða bandaríkjadala. Musk greiddi 44 milljarða bandaríkjadala, eða rúmlega 6000 milljarða íslenskra króna, fyrir fyrirtækið.
Um þetta fjallar dagblaðið Guardian, sem hefur undir höndum minnisblað starfsmanna Twitter, vegna hlutabréfa sem þeim voru fengin í félaginu, en geta ekki selt fyrr en að tilteknum tíma liðnum.
Markmiðið með slíkum kaupaukagreiðslu er að hvetja starfsmenn til að koma fyrirtækinu upp í ákveðið verð, svo þeir geti þá selt bréfin sín og innleyst hagnaðinn.
Twitter hefur fækkað starfsmönnum úr 7.500 niður í 2.000 frá því að Elon Musk tók við taumunum.
Í minnisblaðinu er haft eftir Musk sjálfum að hann sjái skýra en erfiða leið að rúmlega 250 milljarða bandaríkjadala verðmati, sem myndi fela í sér tíföldun þess sem fyrirtækið er metið á í dag.