Rekstrarstuðningur ríkisins til einkarekinna fjölmiðla hefur, líkt og í fyrra, mun meiri áhrif á rekstur minni fjölmiðla en þeirra stærri. Þannig nemur styrkurinn um fimmtungi af rekstrartekjum Sameinaða útgáfufélagsins ehf. (sem er útgefandi Heimildarinnar) á meðan styrkurinn er aðeins brot af rekstrartekjum Árvakurs og Sýnar.
Fjölmiðlanefnd úthlutaði í síðustu viku um 470,5 milljónum króna til 25 einkarekinna fjölmiðla, um 90 milljónum króna meira en á síðasta ári. Árvakur og Sýn fá hvor um sig um 107 milljónir króna, en framlög til þeirra takmarkast af þaki sem sett er við úthlutun.
Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig ríkisstuðningurinn hefur misjöfn áhrif á nokkra valda miðla, en taflan inniheldur þá fjölmiðla sem hlutu yfir 10 milljónir króna í styrk. Eins og sjá má í töflunni eru rekstrarstyrkir Sýnar og Árvakurs aðeins 1-3% af rekstrartekjum félaganna. Í tilviki Árvakurs er styrkurinn um 6% af launagreiðslum, eða um 800 þúsund krónur á hvern starfsmann á ritstjórn. Ekki liggur fyrir í uppgjörum Sýnar hvernig launakostnaði er háttað eða hver nákvæmur starfsmannafjöldi er í fjölmiðlarekstri félagsins.
Heimildin fær umtalsvert hærri styrki en aðrir minni miðlar. Í tilviki Heimildarinnar er styrkurinn um 20% af tekjum Sameinaða útgáfufélagsins. Enginn fjölmiðill fær svo mikið hlutfall af tekjum í styrk. Þá er styrkurinn um fjórðungur af launagreiðslum miðilsins, eða um þrjár milljónir króna á hvern starfsmann. Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta, fær um 20 milljónum krónum minna en er með svipaðan starfsmannafjölda og Heimildin og litlu lægri launagreiðslur. Styrkurinn til Mylluseturs nemur um 17% af launagreiðslum eða um tveimur milljónum á hvern starfsmann á ritstjórn félagsins.
Þá vekur athygli að kostnaður vegna umsýslu og þóknunar fyrir störf úthlutunarnefndar nam í ár um 6,2 milljónum króna, og hækkar um tæpar þrjár milljónir króna á milli ára. Úthlutunarnefnd skipa þau Anna Mjöll Karlsdóttir lögfræðingur (formaður), Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, löggiltur endurskoðandi, og Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Háskóla Íslands.
Árétting vegna fréttar um rekstrarstyrki til fjölmiðla;
Í umfjöllun um rekstrarstyrki til einkarekinna fjölmiðla í ViðskiptaMogganum í gær (og finna má hér fyrir ofan) var birt tafla sem sýndi styrkina og hlutfall þeirra af tekjum og launum og svo styrk á hvern starfsmann. Þar var gengið út frá tölum um Sameinaða útgáfufélagið, sem gefur út Heimildina en áður Stundina, og er það félag sem nú fékk ríkisstyrkinn. Þar var hins vegar ekki gert ráð fyrir tölum fyrir Kjarnann, en samkvæmt upplýsingum frá Sameinaða útgáfufélaginu voru þær tölur einnig lagðar til grundvallar við útreikning styrksins.
Rekstrarstyrkurinn til Sameinaða útgáfufélagsins nam 55 milljónum króna. Sé gert ráð fyrir þessum tölum samanlagt fyrir árið í fyrra voru rekstrartekjur 385 milljónir og styrkurinn því 14,2% af tekjum. Hann var 17,8% af launagreiðslum í fyrra og styrkur á hvern starfsmann nam 2,2 milljónum, en ekki 3 milljónum eins og fram kom í töflunni. Til samanburðar nam styrkur á hvern starfsmann hjá Árvakri 0,8 milljónum, eins og fram kom í blaðinu í gær.