c

Pistlar:

2. júlí 2012 kl. 12:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ná sveitarfélögin utan um rekstur sinn?

Sveitarfélög landsins hafa mörg hver barist við mikla skuldsetningu undanfarin ár en óhætt er að fullyrða að þau hafi flest notað uppgangsárin fram til ársins 2008 til að safna skuldum. Eins og oft á við í rekstri hins opinbera þá ríkir ekki mikil fyrirhyggja í góðæri og ekki tekið á rekstrarvanda fyrr en í óefni er komið. Nú er sú lagakvöð á sveitarfélögum að skuldir þeirra mega ekki vera meiri en sem nemur 150% af heildartekjum frá og með árinu 2020. Það getur orðið erfitt að aðlaga sig að því marki enda ekki til vinsælda fallið að sitja á framkvæmdabremsunni.

Þar sem sveitarfélögin höfðu fjárfest af miklu kappi árin fyrir bankahrun er geta þeirra til fjárfestinga afskaplega takmörkuð núna. Þar sem skynsemi kemst að hljóta menn að nota tímann til að vinna úr erfiðum skuldamálum, semja og endurskipuleggja. Í sumum tilvikum þarf að grípa til róttækra aðgerða. Líklega munu næstu misseri kalla á enn frekari sameiningar eins og sést af væntanlegri sameiningu Álftanes og Garðabæjar þar sem vel rekið sveitarfélag tekur yfir annað illa rekið. Líklega verður haldið áfram að þrýsta á um sameiningar sveitarfélaga og með fjölgun verkefna er allt eins líklegt að það verði nauðsynlegt.

Eru sveitastjórnir hæfar til að taka við aukinni ábyrgð?


Samhliða gríðarlegum fjárfestingum sveitarfélaga hafa verkefni þeirra orðið fleiri og umfangsmeiri og ekki er víst að allir átti sig á því að fleiri starfa nú hjá sveitarfélögum landsins er ríkinu. Stöðugt meiri ábyrgð á almannaþjónustu hefur færst út til sveitarstjórna sem í sumum tilvikum hafa gengið í gegnum harðan skóla. Er óhætt að segja að veruleg lausung hafi einkennt fjárreiður sumra sveitarfélaga og voru þau stærstu ekki barnanna best.  Á síðasta ári var svo komið að 12 til 14 sveitarfélög höfðu verið til sérstakrar skoðunar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum þeirra.  

Tekjustofnar flestra sveitarfélaga eru nú keyrðir á fullu og ljóst að ekki verða sóttir meiri fjármunir í vasa skattgreiðenda. Lánasjóður sveitarfélaga (LSS) áætlaði í upphafi árs að gefa út skuldabréf fyrir 4 til 6 milljarða króna á árinu sem nú er hálfnað. Útgáfan á árinu var í takt við spár greiningaraðila og var talin endurspegla takmarkaða nettólánsfjárþörf sveitarfélaga á árinu vegna mikil aðhalds í rekstri og fjárfestingum margra þeirra. En má þó sjá fjárfestingaverkefni hjá sveitarfélögum sem benda til þess að ekki hafi allir lært sína lexíu.

Óhagkvæmar einingar

Sú staðreynd að rekstrareiningarnar eru í sumum tilvikum afar óhagkvæmar ýtir á eftir sameiningum. Sveitastjórnarmenn í Skaftafellsýslu og Mýrdalnum sjá að það er erfitt að halda uppi fullri þjónustu á svo stóru svæði, svo dæmi sé tekin. Tekjum sveitarfélag virðist að talsverðu leyti ráðstafað fyrirfram og vald hinna kjörnu fulltrúa því minna og minna. Ekki er víst að allir hafi séð fyrir þá þróun þegar sveitarfélögin tóku yfir málefni skóla og fatlaðra. Við sjáum það í nýlegum átökum, bæði í Árborg og í Garði, að málefni skólanna eru vandmeðfarinn. Skólamál eru langfyrirferðamestu útgjaldastofnanir og því brýnt að unnið sé með þau mál af fyrirhyggjusemi og stefnufestu. Nauðsynlegt er að þar ríki skýr stefnumótun sem gefi skilaboð til íbúanna um hvers er að vænta. Sveitarstjórnarstiginu er ætlað að koma að skólamálum sem faglegur rekstraraðili en stefnumótun menntamála er áfram hjá ríkisvaldinu. Það er heppilegt fyrirkomulag en ekki er víst að allar sveitastjórnir hafi áttað sig á því.