c

Pistlar:

11. júlí 2012 kl. 10:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þeir sem telja sig eiga Ísland

Fyrir skömmu fékk ég stutta athugasemd vegna skrifa um lítið ferðaþjónustufyrirtæki. Athugasemdin var í raun smávægileg og kom til vegna misskilnings sem ég hafði að hluta boðið upp á með ónákvæmu orðalagi. Bréfritara fannst hins vegar full ástæða til að setja rækilega ofan í við mig og greip augljóslega tækifærið fegins hendi. Það sem vakti athygli mína var að viðkomandi taldi ástæða til að taka fram að hún væri úr þeim hópi landsmanna sem ,,elska" Ísland. Nokkuð sem mér var augljóslega legið á hálsi fyrir að gera ekki.

Þessi stutta athugasemd sem mér barst sýnir glögglega þá upphafningu sem margir telja sig þurfa að beita þegar rætt er um landið sem við lifum á. Landið er smám saman orðið að einhverju meira og æðra en við venjulegir Íslendingar skiljum og er nú jafnvel svo komið að við sem búum á því eigum það helst ekki skilið. Þannig skuldum við svo rækilegar skýringar á öllu raski og breytingum að smám saman ætlum við að gera okkur ókleyft að búa í landinu. Það verður alltaf einhver holtasóley eða lóa sem verður rétthærri. Og þó allt sé rannsakað í þaula þá verður þess bara krafist að meira sé rannsakað eins og gerðist með fiskistofnanna neðst í Þjórsá sem eru líklega mest rannsökuðu fiskistofnar landsins. Það hefur verið upplýst að Veiðimálastofnun getur rakið rannsóknasögu sína í Þjórsá allt til ársins 1973 og sérfræðingar stofnunarinnar viðurkenndu í samtölum að vel væri rannsakað þó vissulega mætti alltaf skoða meira. Fyrir liggja nú 23 skýrslur um fiskgengd í Þjórsá upp á tæplega 900 blaðsíður. Augljóst er að fá vatnasvæði hafa verið jafn mikið rannsökuð. Þrátt fyrir þetta segja menn blákallt að meira þurfi að rannsaka þegar henta málstaðnum. Ef allt um þrýtur er gripið til slagorðsins; náttúran á að njóta vafans.

Glíman við landið

Fyrir skömmu dvaldist pistlaskrifari í Skaftafellssýslu og var þá rækilega minntur á hve náttúra landsins hefur leikið íbúa þessa lands hart. Nýleg eldgos hafa ausið margra sentimetra þykkum öskulögum yfir sýsluna og gert síðustu ár erfið fyrir menn og málleysingja. Í dag erum við sem betur fer þess umkomin að taka glímuna við náttúruöflin. Það var ekki hægt fyrir 240 árum þegar Skaftáreldar gerðu landið nánast óbyggilegt og fóru langt með að útrýma þjóðinni. Það var sá veruleiki sem Íslendingar bjuggu við og þá fengu landsmenn ekki að njóta vafans svo gripið sé til orðalags sem virðist vera mantra nútímans. Það eru ekki nema ríflega 100 ár síðan Íslendingar náðu tökum á þeim harðbýlu aðstæðum sem náttúra landsins hefur skapað okkur. Í upphafi 20 aldarinnar var fólk enn að deyja úr hungri á Íslandi um leið og menn ortu til holtasólaeyjarinnar og lóunnar í andaslitrunum.

Hver borgar fyrir gæðin?

En ef aftur er vikið að þeirri sem hóf umræðuna. Konunni sem elskar Ísland svo mikið að ástarjátningarnar eru út um allt. Það ætti líklega að koma fáum á óvart að viðkomandi er fararstjóri og selflytur fólk um landið. Ef ég þekki fararstjórasagnfræði rétt þá er undantekningalaust talað illa um stóriðju og orkuvinnslu af þessu ágæta fólki en ekki minnst á þá augljósu staðreynd að ferðaþjónustan er að drekkja landinu í ferðamönnum. 20% aukning umferðar inn á hálendið það sem af er ári fær þannig litla sem enga athygli. Frekar að rifist sé um hvort eigi að rukka fólk fyrir aðgengi að einstökum stöðum þar sem augljóslega þarf að takmarka aðgang. Það virðist vera slíkt tabú að engu er líkt en um leið er fólkið, sem ekkert vill borga, búið að hertaka alla staði. Því stendur orðið í flestum Íslendingum að heimsækja vinsælustu staðina yfir sumartímann vegna erlendu ferðamannanna sem heimsækja þá og borga ekkert fyrir. Að ekki sé talað um nýtingu þeirra á mannvirkjum sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir.

Þessi pistill er ekki skrifaður til að fjandskapast út í ferðaþjónustu. Hún á alveg jafn mikinn rétt á sér og önnur atvinnustarfsemi í landinu en oft er eins og fólk sem tengist henni telji sig fullfært til að senda öðrum pistilinn af því að það ,,elskar" svo mikið landið. Sú ást virðist ætla að verða kæfandi þegar upp er staðið.