c

Pistlar:

19. júní 2013 kl. 11:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hið sanna ástand heimsins

Í þau fáu skipti þegar gott færi gefst á að tala við fólk úr öðrum heimshlutum kemst maður skjótt að því hve lítið maður veit um raunverulegt ástandi í fjarlægum löndum og skiptir þá litlu þó mikið fréttaflæði sé þaðan. Fréttir dagsins eins og þær eru matreiddar í gegnum heimsmiðlana er líklega ófullkomnasta leiðin til að öðlast skilning á heiminum. Margar betri leiðir finnast, nú þegar upplýsingaflæðið eykst veldisfalt ár frá ári. Ein leið til að nálgast skilning á þróun mála og jafnvel breytingum á heimsvísu er að rýna í tölfræði. En það getur líka verið villandi, veldur hver á heldur.

Í vetur var Ríkisútvarpið með talsverða umfjöllun um fátækt í heiminum sem að mestu leyti gekk út á þá skoðun að heimur versnandi fer. Og gott ef ekki kapítalismanum var um að kenna! Látum vera þó þessi umfjöllun hafi yfir sér blæ trúboðsins en hitt vekur þó athygli að þær upplýsingar koma ekki beinlínis heim og saman við aðra umfjöllun hvort sem við rýnum tölur alþjóðastofna eða skoðum hina einstöku fyrirlestra Hans Rosling á Ted.com. Allt þetta efni gefur tilefni til að ætla að margt sé að breytast til jákvæðari vegar þó vissulega sé áfram nóg af erfiðleikum og vandamálum.

Velmegunardauði framúr hungurdauða

Fyrr á árinu urðu þau tímamót að fleiri voru taldir deyja úr velmegunarsjúkdómum en hungri í heiminum. Sjálfsagt heldur ófullkomið viðmið en segir samt ákveðna sögu. Þrátt fyrir að mannfjöldi á jörðu sé nú að nálgast 7 milljarða þá er hungur staðbundið vandamál sem fyrst og fremst tengist stríðsátökum og erfiðleikum við flutninga. Næringarskortur er vandamál af sama meiði sem einnig er erfitt að útskýra nema líta til vanþekkingar og pólitísks ófremdarástands í viðkomandi löndum. Sumstaðar í Afríku er þannig varla hægt að tala um miðstjórnarvald af nokkru tagi.

Fyrir stuttu gerði viðskiptaritið The Economist fátækt að forsíðuumfjöllun sinni. Fyrirsögnin bar með sér bjartsýni um að það hugsanlega nálguðumst við endalok fátæktar (Towards the end of poverty) en vitaskuld eru það afstæð viðmið. Blaðið var að horfa til þeirrar staðreyndar að á milli áranna 1990 og 2010 fækkaði þeim sem bjuggu við algera örbirgð (exstreme poverty) um ein milljarð manna. Hlutfall þeirra sem bjuggu við algera örbyrgð í þróunarlöndunum fór úr 43% árið 1990 í 21% árið 2010. Vissulega er þetta mikið fagnaðarefni en mikið verk er að vinna. Alger örbyrgð miðast við þá sem hafa 1,25 Bandaríkjadali eða minna til að lifa af á dag. Slíkt fólk á nánast ekkert og hefur ekki aðgang að neinu þeim lífsgæðum sem við teljum forsendu heilbrigðs lífs. Því er gríðarlega mikilvægt að fækka í þeim hópi. Fátæktarviðmið í þróunarlöndum eru 4 Bandaríkjadalir á dag en í Bandaríkjunum telst það merki um fátækt þegar fjögurra manna fjölskylda hefur 63 dali eða minna til að lifa af.

En hvað hefur orsakað þessar breytingar? Vissulega hafa mörg markmið verið sett af alþjóðasamfélaginu og mikið starf unnið þar. Economist bendir hins vegar á að tvo þriðju árangursins megi þakka hagvexti í þróunarlöndunum. Mest sé því að þakka kapítalismanum og frjálsri verslun í heiminum. Sjónarmið sem líklega fær seint inni hjá Ríkisútvarpinu.