„Höfum við ekki bara öll verið að djamma?“

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Forsetaframbjóðendurnir sex sem mælast efst í skoðanakönnunum viðurkenna flestir fúslega að hafa djammað áður.

Þetta kom fram í kappræðum Vísis í kvöld þegar rædd var umfjöllun um ljósmynd af Baldri Þórhallsyni á kyn­lífs­klúbbi í Par­ís.

Heimir Már Pétursson þáttarstjórnandi spurði frambjóðendurna sex: Hafið þið aldrei farið á skemmtistað eða útihátíð þar sem gæti hugsast að það væri einhver að kela og eiga kynlíf?

„Hvers vegna horfirðu svona á mig,“ hrópaði Jón Gnarr, kíminn að venju. Jón rakti síðan söguna af því þegar hann fór á Lucky Cheng's, hinsegin kabarett-stað í New York. Sagðist hann hafa verið dreginn upp á svið.

Lang síðan hún djammaði seinast

Þá skaut Katrín Jakobsdóttir orði inn í samtalið: „Höfum við ekki bara öll verið að djamma?“

Hún benti jafnframt á að það væri svolítið langt síðan hún gerði það sjálf en hafi gert það mikið á sínum yngri árum.

Halla Tómasdóttir bætti þar við að það væri áhyggjuefni að fólk leitist eftir því að „fella fólk á einhverju sem er verulega eðlilegt að gera“ frekar en að hjálpa þjóðinni að kynnast þeim.

Engir englavængir á baki Arnars Þórs

Halla Hrund fékk þá orðið: „Ég held að allir hafi verið á skemmtistað og haft gaman af.“ Þá ræddi hún um áhrif af samfélagsmiðlum. Sagði að það væri auðveldara nú en áður „að setja fram alls konar hluti“. Áður var það bara „gamla góða filman“.

Arnar Þór Jónsson sagðist hafa farið á alls konar bari og skemmtistaði með félögum sínum í útlöndum.

„Ég er ekki með neina englavængir á bakinu,“ sagði hann. Hann sagði markmið síns málflutnings sé að fjalla um viðfangsefnið en ekki persónur.

Katrín segir samfélagsmiðla hafa breytt orðræðunni. Spurningar hafi einnig verið persónulegar á árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert