Búlluborgarinn valinn tíundi besti borgari Evrópu

Hamborgarabúlla Tómasar er með tíunda besta borgarann í Evrópu!
Hamborgarabúlla Tómasar er með tíunda besta borgarann í Evrópu! Samsett mynd

Alvöru matgæðingar eru oftar en ekki tilbúnir að leggja ansi mikið á sig fyrir góðan mat. Það hafa blaðamenn ferðavefsins Enjoy Travel gert sem ferðuðust um alla Evrópu í leit að bestu hamborgurunum. 

Nú hafa þeir komist að niðurstöðu og birt lista yfir 50 bestu borgarana í Evrópu. Á listanum er vinsæll hamborgarastaður sem eflaust margir kannast við hér á Íslandi, en hamborgarinn á Hamborgarabúllu Tómasar var valinn tíundi besti borgarinn í Evrópu. 

„Hann gæti verið staðsettur á köldum stað, en Hamborgarabúlla Tómasar býður upp á borgara sem mun ylja sálinni. Staðurinn notar íslenskt grasfóðrað nautakjöt til að tryggja að hamborgararnir þeirra séu safaríkir og fullir að bragði, og síðan eru þeir skreyttir sem úrvals hráefni eins og stökku beikoni og rjómalöguðum amerískum osti,“ er skrifað í umsögn um staðinn.

20 ár frá því fyrsti staðurinn opnaði

Tómas Tómasson, stofnandi Búllunnar, er virkilega ánægður með þessa niðurstöðu. „Það er alltaf mikill heiður þegar borgararnir okkar fá svona viðurkenningu enda höfum við frá upphafi lagt mikla áherslu á gæði í okkar eldamennsku. Við erum stolt af borgurunum okkar  – þeir eru ekkert rosalega flóknir en það sem skiptir mestu máli eru einmitt gæði hráefnanna sem minnst er á í umsögninni.

Við leggjum ríka áherslu á stöðugleika, þ.e. að þú getir alltaf gengið að því vísu að fá eins borgara hjá okkur, sama hvað langt líður á milli heimsókna. Þetta virðist virka nokkuð vel hjá okkur en frá því að við opnuðum dyrnar á fyrstu Búllunni við Geirsgötu fyrir sléttum 20 árum hafa rúmlega tvær milljónir borgarar verið grillaðir bara þar – plús allir borgararnir sem hafa verið grillaðir á öðrum stöðum Hamborgarabúllunnar,” segir hann, en í dag hafa verið opnaðir níu staðir á Íslandi, þrír í Englandi, einn í Þýskalandi og einn í Danmörku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert