„Hugsið ykkur ómennskuna í framferði stjórnvalda“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var harðorður í garð stjórnvalda þegar hann fjallaði um mál kvennanna þriggja sem vísa á úr landi til Nígeríu á næstu dögum.

„Síðustu daga hafa okkur borist fréttir af þremur konum, þeim Blessing, Mary og Esther, konum sem flúðu mansal í Nígeríu og leituðu ásjár íslenskra stjórnvalda fyrir mörgum árum. Þær komu til Íslands fyrir fjórum til sex árum, komust hingað í skjól frá hrottalegu ofbeldi og síðan þá hafa íslensk stjórnvöld leitað allra leiða til að skjóta ekki skjólshúsi yfir þær og leitað allra leiða til að losna við þær úr landi þannig að þær geti farið aftur í þær aðstæður sem þær eru að flýja,“ sagði Andrés Ingi undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi í dag.

Andrés segir að þessar konur séu hluti af hópi flóttafólks sem fyrir ári síðan varð fyrir hræðilegri breytingu á útlendingalögunum sem samþykkt var á Alþingi. Hún hafi snúist um að svipta þær allri þjónustu og varpa þeim út á götuna úr úrræðum Útlendingastofnunar til þess að þær myndu pínast til að fara úr landi sjálfviljugar.

Voru frelsissviptar í fangelsinu á Hólmsheiði

„Þær völdu þann kostinn ekki, enda er ekki hægt að ætlast til þess að þolendur ofbeldis fari sjálfviljugir inn í ofbeldið aftur. En nú virðast stjórnvöld hafa fundið einhverja leið til að brottvísa þeim með valdi, sem ekki var hægt fyrir ári. Þær voru hnepptar í varðhald. Þær voru frelsissviptar í fangelsinu á Hólmsheiði núna um helgina fyrir þann glæp að vera þolendur mansals. Hugsið ykkur grimmdina. Hugsið ykkur ómennskuna í framferði stjórnvalda,“ sagði Andrés Ingi.

Andrés innti Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, eftir því hvernig hún réttlætir brottvísun þolenda mansals.

„Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur hér að ég tel ekki rétt af mér sem ráðherra og get ekki tjáð mig um einstök mál sem hlotið hafa meðferð á tveimur stjórnsýslustigum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála,“ sagði Guðrún meðal annars í svari sínu.

Hún segir að þetta séu flókin mál, þau séu persónulegu og þegar einstaklingar komi hingað til lands og sækist eftir vernd þá beri að fara ofan í kjölinn á þeim umsóknum og þeim forsendum sem þar séu lagðar fram.

Getur verið óbærilega sárt

Hjá Útlendingastofnun sem og kærunefnd starfar hópur af fagfólki með sérþekkingu á þessum málaflokki sem ég ber traust til. Ég hef því hvorki heimild né forsendur til að taka fram fyrir hendurnar á þeim varðandi meðferð einstakra mála eða breyta niðurstöðu þeirra,“ sagði Guðrún ennfremur.

Hún segir að ríkistjórnin sé búin að segja það í heildarstefnu sem kynnt var í febrúar að auka eigi brottflutning frá landinu og auka brotflutning þeirra sem ekki hafa fengið vernd hér á landi og beri þar að leiðandi að yfirgefa landið.

„Það þýðir að fólk mun þurfa að fara héðan sem jafnvel er búið að vera hér í nokkuð langan tíma og hefur verið lengi í kerfinu. Það getur verið óbærilega sárt,“ sagði dómsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka