Íslendingar þurfa að fullorðnast í varnarmálum

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar …
Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það vill því miður brenna við að hugmyndin um frið sé sett upp sem andstæða við varnir." sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra í opnunarávarpi sínu á hátíðarfundi sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun. 

Yfirskrift fundarins var: NATO í 75 ár: Samvinna í þágu öryggis, og var hann haldinn í tilefni 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins. Jens Stoltenberg framkvæmdarstjóri Atlantshafsbandalagsins ávarpaði gesti rafrænt.

Að fundinum stóðu utanríkisráðuneytið, Varðberg - samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál og Alþjóðamálastofnun HÍ.

„Við þurfum að fullorðnast“

Í opnunarávarpi sínu fjallaði Þór­dís Kol­brún um mikilvægi Atlantshafsbandalagsins og þátttöku Íslands í bandalaginu. Hún sagði þau ríki sem tilheyra bandalaginu búa við öflugustu öryggistryggingu sem völ er á í heimi þar sem óvissa eykst sífellt.

„Heimsmynd sem mörg okkar ólust upp við er á hverfanda hveli. Við getum vonað að hún komi aftur en við getum ekki búist við því og enn síður gert ráð fyrir því. Við verðum að fást við heiminn eins og hann er,“ sagði Þórdís. 

Þórdís telur mikilvægt að bregðast við breyttum aðstæðum í öryggismálum. Það sé gert með því að byggja upp eigin varnir á sama tíma og tekið er þátt í sameiginlegum vörnum bandamanna. 

„Og við þurfum að fullorðnast. Þegar friði er ógnað í Evrópu þá kemur það okkur við og þegar kemur að því að leggja fram okkar þátt í stuðningi við það sem gera það sem þarf þá eigum við ekki að spyrja fyrst hvað henti okkur sjálfum best, heldur hvort við getum lagt fram eitthvað af því sem brýnust þörf er á.“

Rússar ógn við Ísland

Þórdís sagði Íslendinga ekki bara áhorfendur að tilraunum Rússa til að valda tjóni, heldur sé margvísleg ógn sem getur steðjað að samfélaginu, bæði beint og óbeint. Vitað sé til þess að Rússar hafi kortlagt sæstrengi og aðra mikilvæga innviði hér á landi. 

Hernaðarlega mikilvæg staðsetning er enn mikilvægari nú ef til alvarlegri togstreitu eða átaka kemur milli vesturlanda og Rússlands, sagði Þórdís. 

„Þetta þýðir vitaskuld að það er algjör fjarstæða sem stundum heyrist, að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu geri okkur að líklegra hugsanlegu skotmarki en ella. Ég reyni almennt að spara stóru orðin, en þessi staðhæfing er að mínu mati hreinræktuð della.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók þátt í pallborðsumræðum um …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók þátt í pallborðsumræðum um helstu áskoranir Atlantshafsbandalagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umsvif í Keflavík vaxið

Þá fjallaði Þórdís einnig um framlag Íslendinga til Atlantshafsbandalagsins og sagði stærsta einstaka framlag Íslands vera landfræðilega stöðu landsins og þá aðstöðu sem hægt sé að veita hér. 

Hún sagði umsvifin í Keflavík hafa vaxið mjög á síðustu árum, sérstaklega í tengslum við kafbátaleit Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja. „Þau munu halda áfram að vaxa og með því undirstrikum við virkar, lifandi og gagnkvæmar varnarskuldbindingar og öflugt framlag Íslands.“

Til landsins hafi komið P-8 sprengjuflugvélar til að sinna fælingaraðgerðum og kjarnorkuknúnir kafbátar Bandaríkjanna, sem nú geta skipt um áhafnir og tekið birgðir við Ísland. 

Stoltenberg þakkaði Íslandi

Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóri Atlantshafsbandalagsins, ávarpaði gesti með rafrænum hætti, en í ávarpi sínu sagði hann að varla sé nokkurt land sem skilji hið sanna eðli Atlantshafsbandalagsins betur en Ísland.

Þar þakkaði hann Íslandi fyrir framlag sitt til heimsfriðar í þessi 75 ár og fyrir stuðning Íslands við Úkraínu. 

Myndbandsávarp Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóra Atlantshafsbandalagsins.
Myndbandsávarp Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóra Atlantshafsbandalagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert