Vildi ekki gefa upp nafn vegna mögulegrar hættu

Landsréttur staðfesti úrskurðinn 10. maí.
Landsréttur staðfesti úrskurðinn 10. maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður sem varð fyrir árás þarf ekki að gefa upp nafn annars manns fyrir dómi sem sendi honum myndefni sem er sönnunargagn í dómsmáli. Tjáði hann dómara nafnið í trúnaði.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni hafði áhyggjur af því sendandinn gæti orðið fyrir mögulegum hefndaraðgerðum ef nafn hans yrði upplýst.

Meintur gerandi í málinu hafði krafist þess að fá að vita nafn þess sem sendi myndefnið.Taldi hann mikilvægt fyrir varnir sínar að fá að vita nafn sendandans svo hann gæti tekið til varna og eftir atvikum krafist þess að viðkomandi maður yrði leiddur fyrir dóminn til skýrslugjafar.

Ákæruvaldið taldi hins vegar ekki nauðsynlegt að upplýsa um nafnið og að dómari gæti lagt mat á gildi sönnunargagnsins, samhliða öðrum sönnunargögnum, án þess að upplýst yrði nafn viðkomandi.

Athygli vekur að einnig var byggt á því að sendandanum kynni að stafa hætta af því ef nafn hans yrði upplýst.

Ekki á meðal framlagðra gagna ákæruvaldsins

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. maí kemur fram að maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi upplýst dómara í trúnaði um nafn sendandans og tjáð dómara að hann hafði lofað sendandanum að gera nafn hans ekki kunnugt.

Hefði hann áhyggjur að sendandanum kynni að stafa hætta af mögulegum hefndaraðgerðum ef nafn hans yrði upplýst. Dómari hafi talið rétt að virða skýringar mannsins sem ráðist var á og taldi ekki þörf á því að upplýsa nafn sendandans og varð kröfu meints geranda hafnað.

Myndefnið var ekki á meðal framlagðra gagna ákæruvaldsins heldur var það lagt fram af brotaþola til stuðnings bótakröfu hans. Kemur hins vegar fram að ákæruvaldið kynni að þurfa að bera hallann af því við endanlegt sönnunarmat að ekki hafi verið upplýst um nafn sendandans með tilliti til áreiðanleika sönnunargagns. 

Meintur gerandi skaut málinu til Landsréttar með kæru sama dag þar sem kært var úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Saksóknari krafðist aðallega að málinu yrði vísað frá en til vara að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur.  

Landsréttur staðfesti úrskurðinn 10. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka