Hlaupið fyrir speglunartækjum

Kvensjúkdómalæknirinn Ragnheiður Oddný Árnadóttir hvetur alla til að mæta í götuhlaupið Lífssporið fimmtudaginn 30. maí. Ágóðinn af hlaupinu verður notaður í ný legspeglunartæki á kvennadeild Landspítalans. 

Ný vitneskja um pýramída, frummenn og landnám

Saga Heiðrúnar sem fannst látin í Hellisskúta í ríflega 600 metra hæð yfir sjávarmáli á Austfjörðum verður aldrei upplýst. Fornleifafræðingar vita þó ýmislegt um þessa ungu ríkulega búnu konu. Einn þeirra sem kom að fundi og uppgreftri Heiðrúnar er Sigurður Bergsteinsson fornleifafræðingur og verkefnastjóri hjá minjastofnun. Hann er gestur okkar í dag og ræðir fund Heiðrúnar, stöðu fornleifauppgraftrar í sumar ásamt nýjum stórmerkilegum uppgötvunum í tengslum við byggingu pýramídanna í Egyptalandi. Helstu fornminjarannsóknir í sumar fara fram við Fjörð í Seyðisfirði, Stöð í Stöðvarfirði og Odda á Rangárvöllum. Fjármagn til að sinna rannsóknum á þessu sviði er af mjög skornum skammti. Þannig var einungis hægt að afgreiða þriðjung umsókna um styrki til rannsókna í sumar. Úthlutað var um 80 milljónum en sótt um 255 milljónir.

Staðan í Úkraínu

Tvö ár og þrír mánuðir eru liðnir frá því að Úkraínustríðið hófst. Rússneski herinn herjar nú á norðausturhluta landsins og hefur orðið nokkuð ágengt. Stefán Gunnar Sveinsson, sagnfræðingur og blaðamaður Morgunblaðsins, fer yfir stöðu mála.

Forsetakjör og fjölmiðlar

Síga fer á lokasprett kosningabaráttunnar, enda forsetakjör eftir aðeins níu daga. Andrea Sigurðardóttir blaðamaður og Þórður Gunnarsson hagfræðingur ræða kosningabaráttuna og ekki síst hvernig hún birtist í fjölmiðlum.