Börðumst fyrir þessum þremur stigum

Atli Þór Jónasson sem skoraði fyrra mark HK sækir en …
Atli Þór Jónasson sem skoraði fyrra mark HK sækir en Finnur Tómas Pálmason reynir að verjast honum. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég held að augljósasta breytingin á liðinu í þessu síðustu leikjum sé framlag leikmannanna," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, eftir sigurinn á KR, 2:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í dag.

HK var með eitt stig eftir fyrstu fjóra leikina en er nú komið með sjö stig eftir sigra á Víkingi og KR.

„Sjálfstraustið fylgir að sjálfsögðu með en fyrir Víkingsleikinn hefði verið eðlilegt að það hefði verið frekar lágt. Undirbúningurinn fyrir þann leik og frammistaðan þar sýndu ekki lítið sjálfstraust og auðvitað jókst það við þann sigur og núna er það okkar að halda því áfram," sagði Ómar Ingi við mbl.is eftir leikinn.

„Hópurinn er að verða sterkari. Atli Arnarson er orðinn heill og núna er það hans verkefni að komast í liðið. Magnús Arnar hefur ekkert gert til þess að missa sína stöðu þar. Hákon kom til okkar í lok gluggans og hann er að komast í meiri takt við liðið þannig að þetta er klárlega að verða þéttara hjá okkur og vonandi verður áframhald á því, bæði að menn sýni svona frammistöðu og ætli sér að halda sæti sínu í liðinu. En um leið að þeir sem koma inn á setji pressu á þá," sagði Ómar.

Fórum að horfa á klukkuna

KR-ingar voru hættulegastir eftir að þeir voru orðnir níu gegn ellefu, eftir tvö rauð spjöld á lokakafla leiksins, og Ómar viðurkenndi að hann hefði verið orðinn smeykur um að missa frá sér sigurinn.

Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Já, klárlega, það var eiginlega óskiljanlegt hvernig við urðum passífir þegar þeir misstu fyrst einn og svo annan mann af velli. Við gerðu það ekki á móti Víkingi og ekki í þessum leik þar til staðan var orðin 2:0. Þá fóru menn hins vegar að horfa á klukkuna og bíða eftir því að leikurinn væri búinn. Það er staða sem við komum okkur of oft í síðasta sumar, og það er ekki nógu gott.

En að sama skapi fengum við ansi góð færi til að skora þriðja markið. Því miður vill þetta gerast. Við erum hérna í Frostaskjólinu, erum með forystu og fórum of mikið að verja hana. En það hafðist og menn börðust svo sannarlega fyrir þessum þremur stigum," sagði Ómar Ingi Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka