Martin gerði útslagið gegn Bayern

Martin Hermannsson var Alba Berlín mikilvægur í kvöld.
Martin Hermannsson var Alba Berlín mikilvægur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Martin Hermannsson gerði útslagið fyrir Alba Berlín í kvöld þegar liðið lagði Bayern München að velli í uppgjöri efstu liða þýsku 1. deildarinnar í körfuknattleik, 59:53.

Staðan var 53:49, Bayern í hag, þegar stutt var eftir. Martin kom Alba yfir, 55:53, með glæsilegri þriggja stiga körfu þegar 94 sekúndur voru eftir og átti svo stoðsendingu þegar liðið komst í 57:53 hálfri mínútu síðar.

Þetta réð Bayern ekki við og Alba er þar með aðeins tveimur stigum á eftir Bayern fyrir lokaumferð deildarinnar á sunnudaginn. Bayern er með 54 stig, Alba 52 og Chemnitz 50 stig í efstu sætunum. Framundan er síðan úrslitakeppni átta efstu liðanna um þýska meistaratitilinn.

Martin lék í 23 mínútur í kvöld og skoraði fimm stig, átti tvær stoðsendingar og tók eitt frákast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka