fös. 17. maí 2024 16:47
Ferðamenn skoða hinn ryðgaða Garðar BA 64 sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á sunnanverðum Vestfjörðum.
Garðar BA 64 menningarverðmæti eða slysagildra?

Ferðamannasumarið 2024 er hafið og undanfarin ár hefur verið mikil aðsókn að Garðari BA 64, elsta stálskipi Íslands. Íbúar hafa lýst áhyggjum af ástandi skipsins eins og það er í dag. Það sér mikið á því og það er orðið mjög illa farið. Skipið er gegnumryðgað og götótt. Áhyggjur íbúa snúa að því að það verði slys og að slysahætta hafi aukist verulega vegna ástandsins skipsins, að því er segir í umfjöllun Mrogunblaðsins.

Garðar hefur staðið í fjörunni við Skápadal í Patreksfirði síðan 1981. Á þessum fjörutíu og þremur árum sem Garðar hefur staðið í fjörunni hefur skipið ryðgað mikið.

Í ársskýrslu Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða árið 2023 undir fyrirsögninni „söguleg menningarverðmæti eða slysagildra“ segir að Garðar sé nú gegnumryðgaður og hættulegur þeim sem sækja hann heim.

Skipið var smíðað í Noregi árið 1912 fyrir sel- og hvalveiðar. Það kom upprunalega til Íslands í seinni heimsstyrjöldinni en árið 1974 keypti Patrekur hf. skipið og var Jón Magnússon, aðaleigandi félagsins, skipstjóri Garðars. Á vetrarvertíðum þegar Jón var skipstjóri var Garðar oft aflahæsti netbáturinn á Vestfjörðum. Árið 1981 varð Garðar ónothæfur og honum siglt upp í fjöruna við Skápadal í desember, þar sem hann hefur staðið síðan.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.

til baka