lau. 18. maí 2024 14:49
Íbúðaverð var stöðugra á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Íbúðaverð rúmlega tvöfaldast frá aldamótum

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur rúmlega tvöfaldast frá aldamótum ef tekið er tillit til verðbólgu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS.

Frá 1981 til 2000 var engin hækkun á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu umfram almenna verðþróun.

Tveir áratugir án raunhækkunar

HMS hefur útbúið vísitölu fyrir íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu frá 1981 en fyrir var vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu einungis fáanleg frá árinu 1994.

Með lengri tímaröð gefst betra tækifæri til að greina þróun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu yfir lengra tímabil, en ýmsar breytingar á húsnæðismarkaðnum hafa átt sér stað á síðustu fjórum áratugum.

 

Lítil raunhækkun íbúðaverðs á níunda og tíunda áratugnum er í andstöðu við þróun fasteignamarkaðsins frá aldamótum, en íbúðaverð hefur hækkuð um 150 til 170 prósent umfram verðlag á síðustu tveimur áratugum.

Sveiflur háðar efnahagsástandi og lánþegaskilyrðum

Níundi áratugur síðustu aldar einkenndist af mikilli verðbólgu og sveiflukenndu efnahagsástandi og var hagvöxtur á bilinu -2 prósent til 9 prósent.

Raunverð íbúða hækkaði í byrjun áratugarins en byrjaði að lækka samhliða óðaverðbólgu og efnahagssamdrætti árið 1983. Húsnæðisverð byrjaði svo að hækka árið 1987 samhliða miklum hagvexti og minnkandi verðbólgu.

Á tímabilinu 1988-1996 hélst húsnæðisverð stöðugt en fór svo aftur að hækka undir lok tíunda áratugarins samhliða uppgangi í efnahagslífinu.

Þrjú hækkunartímabil frá aldarmótum

Mesta hækkunin frá aldamótum átti sér stað á þremur tímabilum. Fyrsta tímabilið var 2000-2006, en þá tók húsnæðisverð stökk í kjölfar rýmri lánþegaskilyrða á húsnæðismarkaði og efnahagsuppgangi.

Annað tímabil var á árunum 2013-2017 þegar hagvöxtur var mikill, þá sérstaklega í ferðaþjónustu. Þriðja tímabilið var á árunum 2020-2022 í kjölfar vaxtalækkana í heimsfaraldrinum.

Raunverð húsnæðis lækkaði á tveimur tímabilum á síðustu tveimur áratugum. Annars vegar í kjölfar fjármálahrunsins árin 2008 og 2009 og hins vegar lækkaði það um 5 prósent í kjölfar vaxtahækkana árin 2022 og 2023.

til baka