fös. 17. maí 2024 23:04
Íkveikjan átti sér stað um miðja nótt.
Myrti fimm vegna misskilnings

Karlmaður undir lögaldri, Kevin Bui, sætti sig ekki við að Iphone símanum hans var stolið eins og hann taldi föstudagskvöld eitt í ágúst árið 2020. Fyrir vikið lágu fimm manns í valnum áður en nýr dagur rann upp. Yngsta fórnarlambið var sex mánaða.

Kevin Bui er búsettur í Colaradoríki og nú fjórum árum síðar hefur hann játað sök í morðmálinu. Bui er tvítugur og var því sextán ára þegar hann varð fimm að bana. 

Bui leitaði hefnda þegar hann taldi að símanum sínum hefði verið stolið en rakningarkerfi leiddi hann að húsi í Denver í Colarado. Þar bjó fjölskylda frá Senegal og taldi Bui ásamt tveimur félögum sínum að eitthvert þeirra hefði hnuplað símanum. 

Spurðu þeir ekki heldur kveiktu í húsinu um miðja nótt með þeim afleiðingum að fimm sem þar gistu létust en þremur tókst að bjarga sér með því að hoppa út af annarri hæð hússins. 

Ungt fólk og börn létu lífið

Ekki er þar öll sagan sögð því lögreglan telur ljóst að rakningarkerfið hafi ekki virkað um rætt kvöld. Voru allir í húsinu saklausir af því að hafa hnuplað símanum. 

Illa gekk að bera kennsl á þremenningana á öryggismyndavélum og beindist ekki grunur að þeim fyrr en fimm mánuðum eftir íkveikjuna. Fram að því töldu margir að um hatursglæp hefði verið að ræða og voru Senegalar í Bandaríkjunum mjög varir um sig á þeim tíma. 

Þau sem létust í brunanum voru á aldrinum sex mánaða og upp í 29 ára. Komu þau öll úr sömu fjölskyldu. 

Dillon Siebert og Gavin Seymour hafa einnig játað aðild að íkveikjunni en ákæruvaldið telur þó ljóst að Bui hafi ráðið ferðinni. Siebert var 14 ára þegar ódæðið var framið og Seymour 19 ára. 

Seymour var dæmdur í 40 ára fangelsi og Bui á yfir höfði sér allt að 60 ára fangelsi. 

til baka