lau. 18. maí 2024 18:36
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Stefna á að afgreiða málið í júní

Önnur umræða um útlendingafrumvarpið svokallaða fór fram í gær og voru atkvæði greidd um ýmsar breytingatillögur.

Píratar óskuðu eftir því að málið færi aftur til allsherjar- og menntamálanefndar. Málið fer því aftur inn á borð nefndarinnar áður en það fer til þriðju umræðu í þingsal. Raunhæft gæti verið að málið verði afgreitt í þinginu snemma í júní. Á þingmönnum Pírata mátti skilja að þau óttist að það stangist á við mannréttindaákvæði að útlendingur þurfi að fá endurnýjað dvalarleyfi áður en að fjölskyldusameiningu kemur.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir sjálfsagt að málið fari aftur til nefndarinnar. Hún segist þó ekki hafa áhyggjur af því að ákvæðið stangist á við alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafi skrifað undir enda séu reglur til að mynda í Danmörku strangari en þær sem hér um ræðir og öll Norðurlöndin setji skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu

„Eitt stærsta atriðið í frumvarpinu snýr að fólki sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi eftir að hafa þegar fengið vernd í öðru landi. Það er hægt að gera hérlendis en ekki í nágrannalöndunum, upphaflega kom þetta ákvæði inn að fyrirmynd frá norskri löggjöf en langt er síðan þeir afnámu það. Á síðustu árum hafa um 200-300 manns með vernd í öðru Evrópuríki komið til Íslands á ári hverju, þetta veldur miklu álagi á kerfið okkar.“

Nú er lagt til að breyta þessu í samræmi við reglur annars staðar á Norðurlöndum. Stjórnarmeirihlutinn er samstiga í þessu atriði og Flokkur fólksins og Miðflokkurinn eru sammála. Þá virðist stór hluti Samfylkingarinnar styðja þetta atriði en Píratar eru mótfallnir. Píratar virðist allt annað en hrifnir af frumvarpinu miðað við umræðuna síðustu tvo daga. 

til baka