Lokuðu á evrópska notendur

Því miður, evrópski lesandi. Við erum að vinna í þessu, …
Því miður, evrópski lesandi. Við erum að vinna í þessu, segir Chicago Tribune. Skjáskot af vef Chicago Tribune

Nokkrir bandarískir fjölmiðlar hafa lokað á lesendur frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins í kjölfar þess að ný evrópsk persónuverndarlöggjöf tók gildi í dag. Chicago Tribune og The Arizona Daily Star eru á meðal þeirra fjölmiðla sem hafa lokað tímabundið á aðgang Evrópubúa, fremur en að uppfylla skilyrði löggjafarinnar, sem setur hömlur á það hvaða upplýsingum safna má um einstaklinga á netinu. Þá voru miðlar á borð við LA Times, New York Daily News og Baltimore Sun einnig lokaðir notendum í Evrópu um hríð í morgun.

Nýja löggjöfin, sem ber enska heitið General Data Protection Regulation, GDPR, er mun strangari en fyrri reglur um persónuvernd og tekur til allra þeirra sem veita evrópskum borgurum þjónustu, óháð því hvar þjónustuveitandinn er staðsettur.

The New York Times greinir frá því að svo virðist sem ákveðin fyrirtæki, þar á meðal Tronc, sem á ofangreinda fjölmiðla, hafi ákveðið að betra væri að loka tímabundið á aðgang evrópskra notenda en að fá sekt fyrir að fylgja ekki reglunum, þar sem að sektir fyrir brot á persónuverndarlöggjöfinni geta numið allt að 4% af árlegum tekjum fyrirtækja eða 20 milljónum evra.

Allt lokað vegna GDPR.
Allt lokað vegna GDPR. Skjáskot af vef Arizonal Daily Star

Á vef Chicago Tribune segir að verið sé að leita lausna á þessu svo lesendur í Evrópu geti lesið vefinn á ný, en rúm tvö ár eru síðan Evrópuþingið og -ráðið samþykkti nýju löggjöfina. Hún hefði því ekki átt að koma neinum á óvart.

Fyrirtæki hafa almennt verið í óðaönn að undirbúa sig og flestir lesendur mbl.is hafa eflaust fengið ofgnótt tölvupósta síðustu daga og vikur frá fyrirtækjum sem eru að uppfæra notendaskilmála sína, til þess að uppfylla þau skilyrði sem nýja löggjöfin setur þeim og uppfræða notendur um hvað muni breytast varðandi það hvernig fyrirtækin sýsla með persónuupplýsingar.

Nýja persónuverndarlöggjöfin gerir borgurum Evrópuríkja kleift að minnka þá slóð upplýsinga sem þeir skilja eftir sig á netinu og felur í sér að persónuupplýsingar um þá séu í raun eign þeirra sjálfra og að notkun þeirra þarfnist samþykkis. Neytendur eiga rétt á því að fá allar upplýsingar sem fyrirtæki safna um þá afhentar og einnig rétt til að krefjast þess að þeim verði eytt.

Löggjöfin hefur ekki enn verið tekin upp hér á landi, en vernd persónuupplýsinga er hluti af EES-samningnum. Því verður löggjöfin tekin upp í íslenskan rétt og hafa íslenskar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki verið að undirbúa sig fyrir það síðustu misseri. Drög að frumvarpi til persónuverndarlaga liggur fyrir Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert