Myrti 12 ára fósturdóttur vegna sifjaspella

Tiahleigh hafði verið misnotuð af fósturbróður sínum sem óttaðist að …
Tiahleigh hafði verið misnotuð af fósturbróður sínum sem óttaðist að hún væri ólétt. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Hæstiréttur í Brisbane í Ástralíu dæmdi í dag Rick Thorburn í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt Tiahleigh Palmer, 12 ára fósturdóttur sína, í október árið 2015. Hann sat fyrir stúlkunni þegar hún kom heim úr danstíma, myrti hana og fleygði henni hálfnakinni í nærliggjandi á.

Nokkrum klukkutímum áður hafði Thorburn komist að því að táningssonur hans, Trent, hefði misnotað Tiahleigh kynferðislega og hann óttaðist að hún væri ólétt. Eiginkona Thorburns, Trent og annar sonur þeirra hjóna höfðu áður fengið dóma vegna málsins, sem hefur vakið mikinn óhug í Ástralíu. Málið hefur einnig leitt til heildarendurskoðunar á öllu fósturbarnakerfinu í Queensland. BBC greinir frá málinu.

Tiahleigh hafði verið í fósturkerfinu síðan hún var sjö ára, en hafði búið hjá Thorburn-fjölskyldunni í Logan City, skammt suður af Brisbane, frá því í janúar 2015. Hinn 30. október sama ár tilkynnti fjölskyldan hvarf hennar.

Áverkar fundust á höfði við krufningu

Rick Thorburn sagði lögreglunni að hann hefði keyrt Tiahleigh í skólann um morguninn og ekki séð hana síðan. Eftir tveggja leit lögreglunnar að stúlkunni, sem Thorburn-fjölskyldan aðstoðaði við, fannst lík hennar á árbakka í um 50 kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra. Hún var á nærfötunum einum fata og lík hennar var svo illa farið að lögregla gat í fyrstu ekki séð hvort um var að ræða dreng eða stúlku.

Um 600 manns mættu í jarðarför Tiahleigh þar sem Thorburn klæddist bol með nafni hennar áletruðu, en hann var einn þeirra sem báru kistuna.

Rannsókn lögreglunnar hélt áfram þrátt fyrir takmarkaðar vísbendingar, en við krufningu komu í ljós áverkar á höfði stúlkunnar. Lögreglan ræddi við skólafélaga hennar og bauð fundarlaun fyrir vísbendingar um andlát hennar. Þá steig Cindy Palmer, blóðmóðir Tiahleigh, fram og óskaði eftir upplýsingum, en hún hafði nýlega afsalað sér forræði yfir henni.

Upp komst um lygar fjölskyldunnar 

Sjö mánuðum eftir morðið fékk lögreglan nafnlausa ábendingu um að Trent Thorburn gæti hafa misnotað Tiahleigh kynferðislega. Þá fékk lögreglan jafnframt upplýsingar um að Thorburn-fjölskyldan hefði haldið fund kvöldið sem hún var myrt. Fjölskyldumeðlimir voru í kjölfarið kallaðir til yfirheyrslu og lögreglu varð það fljótlega ljóst að þau væru að ljúga.

Lögregla fékk heimild til að hlera heimili fjölskyldunnar og kom þá í ljós að foreldarnir voru að æfa synina í að samræma sögur sínar. Lögreglan komst einnig yfir facebookskilaboð þar sem Trent sagði frænku sinni að hann gæti hafa barnað Tiahleigh.

Í september árið 2016 var Rick Thorburn svo ákærður fyrir morðið á Tiahleigh, misþyrmingu á líki, meinsæri og tilraun til að hindra framgang réttvísinnar. Fram kom við réttarhöldin að hann hefði myrt stúlkuna hinn 29. október árið 2015 til að vernda son sinn.

Sagði að taka þyrfti rétt á málinu

Aðrir fjölskyldumeðlimir voru ekki heima þegar atvikið átti sér stað, en um kvöldið bað hann þau að spyrja ekki spurninga. Málið væri afgreitt. Hann hafði haft áhyggjur af því að Tiahleigh gæti verið þunguð og sagði við konu sína: „Við þurfum að hugsa þetta gaumgæfilega og taka á málinu á réttan hátt.“

Trent var ákærður og dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir sifjaspell og meinsæri á síðasta ári, en fékk reynslulausn í janúar á þessu ári. Móðir hans og eldri bróðir fengu sex mánaða dóma fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar. Þau játuðu öll sök.

Rick Thorburn grét þegar hann játaði á sig morðið og í yfirlýsingu sem lögmaður hans las sagði hann að það liði ekki sá dagur sem hann væri ekki ofsóttur af því sem hann hefði gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert