Segir rannsóknina „þjóðarskömm“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningum í Bandaríkjunum sé „þjóðarskömm“.

Ein vika er liðin síðan hann rak dómsmálaráðherra sinn og vöknuðu í framhaldinu upp spurningar um framhald rannsóknarinnar.

„Þau hafa ekki komist að neinu leynimakki og hafa hegðað sér eins og algjörir brjálæðingar. Þau öskra og hrópa að fólki, hóta því á hræðilegan hátt að svara spurningunum sínum,“ skrifaði Trump á Twitter.

„Þau eru þjóðarskömm og þeim er alveg sama hversu mörg líf (þau) eyðileggja.“ Hann bætti við að um verstu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna væri að ræða. 

Forsetinn hefur margoft gagnrýnt rannsóknina sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari, leiðir þar sem könnuð eru afskipti rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og hvort þau hafi verið í leynimakki með þeim sem störfuðu við kosningaherferð Trump.

Matthew G. Whitaker.
Matthew G. Whitaker. AFP

Þessi nýjustu ummæli forsetans eru talin hafa aukið vægi í för með sér eftir að hann réð Matthew Whitaker, sem hefur gagnrýnt rannsóknina, sem starfandi dómsmálaráðherra í stað Jeff Sessions.

Þar með hefur Whitaker, fyrrverandi starfsmannastjóri Sessions, yfirumsjón með rannsókn Mueller.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert