„Það átti enginn að lifa af“

Forsíða argentínska blaðsins Clarin 21. nóvember 1978 þar sem greint …
Forsíða argentínska blaðsins Clarin 21. nóvember 1978 þar sem greint var frá því sem hafði gerst í Jonestown, AFP

Fjörutíu ár eru liðin frá því sem margir segja að hafi verið fjöldamorð 918 manns, en aðrir tala um sem morð-fjöldasjálfsmorð jafnmargra. Atburðurinn átti sér stað í Jonestown, Guyana þann 18. nóvember 1978.   

People's Temple var sértrúarsöfnuður sem settur var á fót af Jim Jones árið 1956. Söfnuðurinn náði vinsældum þar sem hann talaði fyrir sósíalískum hugmyndum og fagnaði fólki af öllum kynþáttum. Forsprakkinn, Jim Jones, flutti stóran hóp safnaðarmeðlima á frumskógarsvæði í Guyana í S-Ameríku til þess að stunda landbúnað og halda stefnu sértrúarsafnaðarins á lofti. 

Sósíalísk „paradís“

Söfnuðurinn óx hratt og taldi á árinu 1978 yfir þúsund manns, fólk af öllum aldri, þ.m.t. börn og aldraðir. Fólk vann sex daga vikunnar í miklum hita og það sem Jones hafði lofað, sósíalísk paradís, varð aldrei að veruleika. Einhverjir þeirra sem náðu að sleppa undan hörmungunum hafa lýst því hvernig einu matvælin sem þau fengu hafi verið hrísgrjón og baunir og að ýmsum refsingum var jafnframt beitt í söfnuðinum gagnvart þeim sem áttu við hegðunarvanda að stríða samkvæmt þeim sem hæst voru skipaðir. 

Fjöldi fólks náði að flýja svæðið sem leiddi til þess að stjórnmálamenn höfðu afskipti af sértrúarsöfnuðinum og tóku út svæðið og áhyggjur Jones um að lífshættirnir sem fólk bjó við og efasemdir tækju að spyrjast út uxu. Bandarískur þingmaður demókrata sem hafði tekið út svæðið ásamt fylgdarliði var myrtur af meðlimum sértrúarsafnaðarins.

Mynd sem tekin var á vettvangi daginn eftir voðaverkin.
Mynd sem tekin var á vettvangi daginn eftir voðaverkin. AFP

Jones hafði búið fólk undir að það kynni að koma sá tími að fólkið þyrfti að „sofna“ og hafði meira að segja sett fjöldasjálfsmorð á svið, skipað fólki að taka sopa af vökva sem hann sagði vera eitur sem reyndist svo ekki rétt. Hann sagði þá að það hefði staðist „tryggðarpróf“ safnaðarins.

Hvatt til að taka sopa

Að kvöldi 18. nóvember 1978 kallaði hann fólkið í söfnuðinum saman. Hann lét undirmenn sína blanda eiturblöndu í stór ker og hvatti fólki til þess að taka sopa af blöndunni. Jones hafði þá sagt fólkinu að hermenn myndu taka börn þeirra og það ætti ekki möguleika á að fara til baka í sitt gamla líf.

Langflestir hlýddu yfirboðum foringjans eða voru skikkaðir til þess að taka sopa og innan fimm mínútna eftir að hafa tekið sopa af blöndunni var fólkið látið. Meðal þeirra sem létust voru meira en 300 börn. 

Laura Johnston Kohl, ein þeirra sem komst undan voðaverkunum, segir í ítarlegu viðtali við BBC að hún hafi trúað því í einlægni að Jonestown væri paradís. „Þetta var samfélagið sem ég var að leita að. Ég var að leita að jafnrétti og réttlæti, og þarna var fólk með alls konar bakgrunn og af öllum kynþáttum,“ segir hún. Hún segist ekki hafa upplifað tímann í Jonestown sem óhamingjusaman tíma, ólíkt því sem aðrir sem lifðu af hafa sagt. 

Kohl, sem var stödd ásamt öðrum meðlimum safnaðarins í höfuðstöðvunum í Guyana þegar atburðirnir áttu sér stað, sagði að fólk hafi verið harmi slegið þegar fréttirnar bárust. „Það var ómögulegt að hugga mörg okkar,“ segir Kohl í viðtalinu við BBC.

Meira um atburðina má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert