Vissu vel af asbesti í barnapúðrinu

Barnapúðrið frá Johnson & Johnson. Gögn frá fyrirtækinu benda til …
Barnapúðrið frá Johnson & Johnson. Gögn frá fyrirtækinu benda til að forsvarsmönnum þess hafi verið vel kunnugt um að asbest greindist stundum í talkúminu. AFP

Stjórnendum hreinlætisvöruframleiðans Johnson & Johnson var um áratugaskeið kunnugt um að asbest var að finna í barnapúðrinu þeirra. Fyrirtækið á nú yfir höfði sér þúsundir málshöfðana vegna ásakana um að talkúmpúðrið hafi valdið krabbameini.

Reuters-fréttaveitan fjallar um málið í ítarlegri grein og segir forsvarsmenn  Johnson & Johnson fullyrða að þessi vinsæla vara sé bæði hrein og örugg.  Gögn sem eingöngu voru ætluð til notkunar innan fyrirtækisins, og sem Reuters hefur náð að skoða sýna hins vegar að krabbameinsvaldandi asbest agnir leyndust stundum í barnapúðrinu og að forsvarsmönnum Johnson & Johnson var kunnugt um það, en héldu þeim upplýsingum leyndum fyrir eftirlitsaðilum og almenningi.

Vildi fá svör

Darlene Coker var að deyja. Hana langaði bara að vita af hverju. Hún vissi að hún var með fleyðrukrabbamein í lungum og öðrum líffærum. Hún vissi líka að þessi sjaldgæfa tegund krabbameins var banvæn og tengd asbest mengun. Coker var ennfremur kunnugt um að flestir sem greindust með fleyðrukrabbamein höfðu starfað í námum og við iðnað þar sem asbest var notað áður en hættan af efninu var þekkt. Ekkert af þessu átti hins vegar við hana sjálfa og því átti hún erfitt með að átta sig á hvar hún hefði komist í snertingu við efnið.

„Hún vildi fá svör,“ hefur Reuters eftir dóttur hennar, Cady Evans. Coker réði því  Herschel Hobson, lögfræðing sem sérhæfði sig í skaðabótamálum og eftir skoðun beindist athygli hans að barnapúðrinu sem Coker hafði borið á börn sín er þau voru lítil og á  líkama sinn alla ævi.

Hobson vissi að talkúm og asbest finnast oft á sama stað í náttúrunni og að talkúm úr námum, getur verið mengað krabbameinsvaldandi efnum.

Coker höfðaði  því mál gegn Johnson & Johnson og fullyrti að „eitrað talkúm“ í barnapúðrinu væri sökudólgurinn. Fyrirtækið neitaði ásökununum og sagði barnapúðrið laust við allt asbest og tókst raunar að komast hjá því að afhenda niðurstöður prófana á barnapúðrinu sem óskað var eftir. Coker neyddist því til að láta málið niður falla.

Barnapúðrið frá Johnson & Johnson í hillu verslunar í Alhambra …
Barnapúðrið frá Johnson & Johnson í hillu verslunar í Alhambra í Kaliforníu. Dómstóll í Kaliforníu taldi talkúmpúður fyrirtækisins ástæðu fleyðrukrabbameins kærenda. AFP

11.700 hafa höfðað mál vegna talkúmsins

Þeta var árið 1999, en nú tveimur áratugum síðar hefur Johnson & Johnson neyðst til að afhenda þúsundir síðna af gögnum, minnisblöðum og trúnaðarskjölum um málið. Segir Reuters 11.700 manns nú hafa höfðað mál  gegn fyrirtækinu og fullyrða að talkúmpúðrið hafa valdið þeim krabbameini. Þúsundir kvenna  með leghálskrabbamein eru í hópi málshöfðendanna.

Fréttamenn Reuters hafa farið yfir mikið magn skjalanna, vitnisburði og skýrslur sem sýna að að minnsta kosti á árabilinu frá 1971-2000 mældist asbest í litlu magni í bæði hráu talkúmi og endanlegri vöru í einhverjum tilfellum.

Ræddu oft um hvernig taka ætti á vandanum

Þar kemur einnig fram að stjórnendum fyrirtækisins, stjórnendum talkúm námavinnslunnar, vísindamönnum, læknum og lögfræðingum Johnson & Johnson var kunnugt um málið og ræddu oft hvernig taka bæri á því. Eftirlitsaðilum eða almenningi var þó aldrei greint frá vandanum.

Þannig lét Johnson & Johnson bandaríska lyfjaeftirlitið FDA ekki vita að asbest greindist í talkúmpúðri sem tekið var til prófana hjá þremur ólíkum rannsóknarstofum á árabilinu 1972-1975 og að í einu tilfellinu mældist asbest magnið „frekar mikið“. Þess í stað gerði fyrirtækið sitt til að hafa áhrif á áætlanir reglugerðaraðila um að takmarka asbest í snyrtivörum með því að fullyrða að ekkert asbest hefði mælst í prófunum á talkúmi hjá þeim.

Fyrsta umfjöllun  um mengað talkúm í gögnum Johnson & Johnson er frá árinu 1957 og er þar vísað í talkúm sem fyrirtækið fékk frá ítölskum birgja. Reglulega fram til ársins 2000 er slíkar tilkynningar að finna í gögnum vísindamanna fyrirtækisins, sem og skýrslum frá rannsóknarstofum utan fyrirtækisins og í upplýsingum frá birgjum.

Í flestum asbestprófum sem gerð hafa verið á  á talkúmi á rannsóknarstofum Johnson & Johnson finnst ekkert asbest. Reuters segir prófanir fyrirtækisins hins vegar alltaf hafa verið háðar vissum takmörkunum sem feli í sér að litlar agnir sleppi í gegn óséðar. Þá séu prófanir líka gerðar á mjög litlum hluta framleiðslunnar.


 

4,7 milljarðar dollara í bætur

Þó að flestir sem komast í snertingu við asbest fái ekki krabbamein, þarf í sumum tilfellum ekki nema örlítið magn til. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO og önnur heilbrigðisyfirvöld telja líka ekkert magn efnisins vera öruggt.

Reuters segir marga málshöfðendur fullyrða að talkúmpúðrið sem þeir önduðu að sér við notkun púðursins hafi verið nóg til að valda þeim krabbameini.

Þegar hefur verið dæmt í nokkrum málum og hafa niðurstöðurnar verið misjafnar. Dómstólar í New Jersey og Kaliforníu dæmdu kærendum háar skaðabætur og töldu talkúmpúður Johnson & Johnson ástæðu fleyðrukrabbameins þeirra.

Í þriðja dóminum, sem féll í St. Louis taldi kviðdómurinn að barnapúðrið og  Shower to Shower talkúmpúðrið, sem var önnur vinsæl vara hjá fyrirtækinu, hefði valdið leghálskrabbameini og er sú tegund krabbameins  mun algengari en fleyðrukrabbamein. Voru málshöfðendunum 22 dæmdar 4,7 milljarðar dollara í bætur. Flest málin sem höfðuð hafa verið gegn Johnson & Johnson eru líka höfðuð af konum sem fengið hafa leghálskrabbamein og sem segjast reglulega hafa notað talkúmpúður frá fyrirtækinu sem nota átti sem svitalyktareyði á spöngina.

Í þremur dómsmálum til viðbótar höfnuðu kviðdómendur hins vegar þeim fullyrðingum að fleyðrukrabbamein kærenda mætti rekja til notkunar barnapúðursins. Í öðrum málum er dómur ýmist ekki fallinn eða kviðdómur hefur ekki komist að niðurstöðu og réttarhöldin því dæmd ómerk.

Ætlar að áfrýja öllum úrskurðum

BBC greindi frá því nú í kvöld að hlutabréf í Johnson & Johnson hafi lækkað um 10% í dag  í kjölfar umfjöllunar Reuters, en áður virtust fjárfestar láta sér fullyrðingarnar um þetta og aðrar ásakanir í garð fyrirtækisins í léttu rúmi liggja. Höfðu bréf í Johnson & Johnson raunar hækkað um 6% það sem af er ári.

Fyrirtækið hefur sjálft sagt að það muni áfrýja öllum nýlegum úrskurðum gegn sér og fullyrðir í yfirlýsingu að talkúmpúðrið sem það framleiðir sé öruggt. Kviðdómendur sem hafi komist að annarri niðurstöðu hafi látið hjávísindi rugla sig, sem og æsing lögfræðinga sem séu að leita að nýjum asbest kröfuhöfum.

Darlene Coker komst aldrei að því hvað olli fleyðrukrabbameininu hjá henni.  Vefjasýni sem tekið var úr lunga hennar á meðan að málaferlin voru enn í gangi, en sem ekki lágu fyrir fyrr en eftir að hún neyddist til að láta málið falla niður, sýndu hins vegar að langar asbest nálar fundust í lungum hennar.  Lögfræðingur hennar Hobson er líka alveg sannfærður um að forsvarmönnum Johnson & og Johnson hafi verið vel kunnugt um vandann, en kosið að fela hann.

Coker sjálf lést árið 2009, 12 árum eftir að hún var greind og lifði því mun lengur en flestir aðrir sem greinast með fleyðrukrabbamein, því flestir látast innan árs.

Dóttir hennar Crystal Deckard mann hins vegar vel er móðir hennar notaði barnapúðrið frá Johnson & Johnson á yngri systur sína er hún var að skipta um bleyju.

„Þegar mamma fékk þennan dauðadóm var hún jafngömul og ég er nú. Ég er líka stöðugt með þessa hugsun í huga mér. Gæti þetta komið fyrir okkur? Fyrir mig og systur mína?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert